„Verður gaman að fá smjörþefinn af Bandaríkjunum“

0

Vök er ein vinsælasta hljómsveit landsins og þó víða væri leitað en sveitin er á fullu þessa dagana að taka upp nýja plötu! Nýlega sendi sveitin frá sér lagið „Autopilot” en þau segja lagið vera talsvert frábrugðið öðrum lögum plötunnar. Vök kemur fram á Húrra í kvöld og verður öllu til tjaldað! Einnig leggur sveitin land undir fót og kemur í fyrsta skipti fram í Norður Ameríku þann 29. September næstkomandi. Albumm.is náði tali af Vök og svöruðu þau nokkrum skemmtilegum spurningum.


Vök er á blússandi siglingu um þessar mundir en þið eruð talsvert á faraldsfæti! Hvað er eftirminnilegasta gigg sumarsins?

Heyrðu þetta sumarið ákváðum við að túra sem minnst og leyfðum okkur að einbeita okkur að næstu plötu. Við tókum nokkur festivöl gigg og það var Apple Tree Garden sem var klárlega skemmtilegast! Festivalið var í algjöri skógar paradís og veðrið uppá sitt besta og ekki var það verra að hafa smekkfullt af fólki að horfa á okkur. Annars bara vorum við í því að hoppa fram og til baka frá London þar sem við vorum að taka mest megnið af plötunni upp.

Þið senduð nýlega frá ykkur brakandi ferskt lag og myndband „Autopilot” er það búið að vera lengi í vinnslu og er það smjörþefurinn af því sem koma skal?

Svona já og nei okkur finnst lagið alveg smá frábrugðið hinum en lagið sjálft var gert í byrjun ársins 2018. Autopilot er klárlega fersk blanda af upbeat takti við sorglega textasmíði sem við höfum svolítið verið að vinna með á þessari plötu. En við erum að vinna með meira upbeat á þessari plötu en við höfum gert áður.

Þið eruð að vinna að plötu um þessar mundir. Hvenær er von á henni og hvernig munduð þið lýsa henni í einni setningu?

Ef allt gengur upp eftir plani þá ætti hún að koma út í byrjun Mars 2019!

Setning: Sorgleg og sumarleg

Er platan búin að vera lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Já ég myndi segja það. Hún er töluvert hressari og aðeins aðgengilegri en fyrri verk. Við byrjuðum á að móta demóin í apríl / maí og byrjuðum svo að taka hana upp í júní þannig ég myndi segja svona í heildina tók þetta 6 mánuði. Við erum að leggja lokahönd á mix og fínpúss þessa dagana.

Þið spilið í fyrsta skipti í Norður Ameríku (New York) þann 29. september næstkomandi. Hvernig leggst það í ykkur?

Við eru sjúklega spennt! Við erum að fara taka nokkrar ferðir til Norður Ameríku og Kanada í haust, við erum reyndar ekki búin að tilkynna neitt nema New York og LA. En það verður gaman að fá smjörþefinn af Bandaríkjunum þar sem við höfum ekkert verið að einbeita okkur af þeim markaði. Eigum hann allan eftir.

Hvað er framundan hjá ykkur og eitthvað að lokum?

Leggja loka hönd á plötuna, gefa út nokkra singla og tónlistarmyndbönd á næstu mánuðum og túra. Við erum reyndar að spila á Húrra næsta föstudag ásamt ýmsum erlendum tónlistarmönnum, endilega kíkja!

Tónleikarinir á Húrra byrja stundvíslega kl 21:00 og er hægt að nálgast miða á Tix.is

Skrifaðu ummæli