VEKUR ATHYGLI FYRIR FEMINÍSKAN FRUMKRAFT

0

Kolrassa Krókríðandi, skipuð upprunalegum meðlimum, ætlar að halda þrusu tónleika og flytja fyrstu plötu sína, Drápu í heild sinni á Húrra þann 25. nóvember. Drápa verður þá komin fersk úr prentun á Vínyl og CD en þá verða komin 25 ár frá því hún kom út fyrst.

Fjórar 16 ára stelpur í Keflavík, Elíza, Ester, Sigrún og Birgitta stofna hljómsveit og taka þátt í Músíktilraunum. Þær sigra öllum að óvörum og eru skyndilega orðnar þjóðþekktar. Árið er 1992 og Kolrassa Krókríðandi er komin á kortið.

Fyrsta platan, Drápa fylgir í kjölfarið og vekur athygli fyrir feminískan frumkraft og hittir í mark hjá gagnrýnendum og tónlistarspekúlöntum. Drápa, sem var eingöngu gefin út á geisladiski, seldist upp fljótlega eftir útgáfu hennar og hefur verið ófáanleg síðan. Í tilefni af 25 ára útgáfuafmælinu er hún nú endurútgefin, bæði á geisladiski og vínylplötu í takmörkuðu upplagi. Safnað var fyrir útgáfunni með hópfjármögnun og er þátttakendum þakkað þeirra framlag sem gerði endurútgáfuna mögulega.

Drápa reyndist upphafið að löngum og sögulegum ferli Kolrössu Krókríðandi sem leiddi sveitina víða um heim, skilaði þremur plötum undir nafni Kolrössu og tveimur undir nafninu Bellatrix. Kolrassa Krókríðandi lagðist í hýði árið 2001 en hefur þó komið fram við sérstök tilefni, s.s. hátíðartónleika í tilefni af 100 ára kosningaaafmæli kvenna og á rokkhátíðinni Eistnaflugi. Með endurútgáfu Drápu líta þær um öxl reynslunni ríkari og eru hvergi nærri hættar.

Vertu með í þessari geggjuðu afmælistónleikaveislu Kolrössu Krókríðandi, ásamt undurfríðum og eldhressum 90´s leynigestum!

Tónleikarnir fara fram á Húrra laugardaginn 25. nóvember.

Partýið hefst stundvíslega klukkan 22:00 og er miðaverð skitnar 1992 kr!

Hægt er að nálgast miða á Tix.is og er 20 ára aldurstakmark.

Skrifaðu ummæli