„Var með retró tölvuleikjahugmynd í kollinum“

0

Tónlistarmaðurinn Stefán Elí hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu en nýlega sendi hann frá sér lagið „Switching Gears.” Um þessar mundir er kappinn að safna fyrir sinni fyrstu plötu, bolum og útgáfutónleikum inn á vefsíðunni karolina fund.

Stefáni langar að hafa útgáfuna aðeins meira djúsí en bara að negla plötunni inn á netið! Það væri ótrúlega töff að geta haldið á plötunni og virkilega séð það sem maður hefur verið að vinna að segir þessi ungi og efnilegi tónlistarmaður frá Akureyri.


Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom það til?

Ég byrjaði að læra á gítar í Tónlistarskólanum hérna á Akureyri þegar ég var 7 ára og lærði í fimm ár. Svo hætti ég því og brasaði afar lítið í tónlistinni í einhver ár. Í september 2016 fer ég að fikta eitthvað við að búa til takta og byrja að semja mitt eigið efni. Ég fékk svo bara gríðarlegan áhuga á tónlistarsköpun þá og hef verið á fullu í að semja og spila síðan.

Hvernig myndir þú lýsa þinni tónlist og hverjir eru þínir áhrifavaldar?

Tónlistin sem ég hef gefið út hingað til flokkast að mestu leyti sem hip hop músík en það efni sem ég hef verið að vinna í upp á síðkastið er mikið fjölbreyttara. Mér fannst ég vera kominn í einhverja leiðinlega rútínu þar sem ég var alltaf að gera það sama í öllum lögum svo ég ákvað að víkka tónlistarsköpunina og prófa mig áfram í nýjum tónlistarstefnum. Mér líður bara eins og það sé að takast virkilega vel og í framtíðinni mun ég pottþétt vera í mjög fjölbreyttri músík.

Þú sendir nýlega frá þér lagið „Switching Gears“ sem hefur fengið frábærar viðtökur! Var lagið lengi í vinnslu og bjóstu við svona góðum viðtökum?

Switching Gears var nefnilega alls ekki lengi í vinnslu. Ég held að þetta hafi verið laugardagsmorgun þar sem ég byrjaði bara að fikta mig eitthvað áfram við lagið og var með einhverja svona retró tölvuleikja hugmynd í kollinum. Takturinn var tilbúinn fyrir hádegi og svo tók ég upp sönginn sama dag og þá var lagið í raun tilbúið.
Ég var ekki alveg viss hverju skyldi búast við með Switching Gears því það var allt annar fílingur í því en í lögunum sem ég hafði gefið út áður. Fólkið virtist svo bara fíla það virkilega vel og mér þótti það auðvitað geggjað skemmtilegt. Það er auðvitað alltaf frábært þegar einhverjum líkar við það sem maður er að gera.

Þú ert með söfnun inn á Karolina Fund, fyrir hverju ert þú að safna?

Heyrðu, ég er sem sagt með þessa söfnun inni á Karolina Fund þar sem ég er að safna peningum til að fjármagna CD, boli, vínyl og útgáfutónleika. Núna eru bara örfáir dagar eftir af söfnuninni og við þurfum að fara að spýta í lófana til þess að ná þessu. Ég hef hins vegar fulla trú á því að þetta takist hjá okkur.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það sem ég er að bralla núna og verð í á næstunni er bara að gefa út plötuna mína og gera allt það sem tengist útgáfunni. Ég verð í því að reyna að fá sem flesta til að hlusta og svo að reyna að koma út diskunum og bolunum til sem flestra. Ég er bara virkilega þakklátur fyrir allan stuðninginn sem fólk hefur sýnt mér og tónlistinni og ég vona að fólk haldi áfram að hlusta og að fleiri bætist í hópinn.

Við mælum eindregið með að þið farið inn á Karolina Fund og styrkið þennan snilling!

Skrifaðu ummæli