„Var aldrei með plan að verða tónlistarmaður”

0

Barði ásamt styttunni frægu!

Margt er um að vera hjá tónlistarmanninum Barða en á föstudaginn sem leið afhjúpaði hann styttu af sjálfum sér í Rokksafni Íslands og þrjár plötur hljómsveitarinnar Bang Gang fagna afmæli á þessu ári. Styttan var búin til fyrir sýningu á hönnunarsafninu, Triennale í Milano árið 2005. Tónlistarmenn, rithöfundar, arkitektar og myndlistarmenn voru fengnir til að teikna föt svo var styttan klædd í fötin. plöturnar YOU, Something Wrong og Ghosts From the Past  eiga afmæli í ár og var öllu tjaldað til í Rokksafni Íslands!


Þú varst með heljarinnar stuð í Rokksafni Íslands á föstudaginn sem leið, hvað var eiginlega að gerast?

Þrjár plötur Bang Gang eiga afmæli á þessu ári en það eru plöturnar YOU (20 ára), Something Wrong (15 ára) og Ghosts From the Past (10 ára). Það var því tilvalið að halda smá afmælisveislu í rokksafninu. Þetta var lítill privat viðburður þar sem Bang Gang spilaði nokkur lög og vinir héldu ræður og spiluðu plötur.

Það var verið að afhjúpa styttu af þér, hvernig í ósköpunum kom það til og er ekki helvíti góð stemning að fá styttu af sjálfum sér?

Styttan var búin til fyrir sýningu á hönnunarsafninu, Triennale í Mílanó árið 2005. Nokkrir vel valdir tónlistarmenn , rithöfundar, arkitektar og myndlistarmenn voru fengnir til að teikna föt. Svo voru búin til gína í fullri stærð og hún klædd í fötin. Það var svo opnun á herratískuvikunni í Mílanó árið 2005. Nokkrum árum síðar var styttan send til Íslands og er hún núna komin á Rokksafnið og var frumsýnd á föstudaginn.

Arnar Guðjónsson (Leaves, Warmland) og Hildur létu sig ekki vanta í gleðina.

Hvernig er að horfa yfir farinn veg og bjóstu við að Bang Gang yrði þetta langlíft?

Ég spáði aldrei í því. Þetta er bara búið að vera partur af mínu lífi í 20 ár. Ég var aldrei með plan að verða tónlistarmaður. Það bara einhvernvegin tók alltaf yfir allt annað.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það er alltaf eitthvað spennandi framundan hjá manni. Það var að koma út lag sem ég samdi ásamt frábæru stelpunum í Kælan Mikla. Þær eru ótrúlega flinkar og gaman að vinna með þeim, lagið heitir Nótt eftir nótt. Svo er planið að gefa út nýja EP með hljómsveitinni Starwalker á næsta ári, er að prodúsera fyrir Heru sem er hálf nýsjálensk og alls konar spennandi. Svo verða gömlu plöturnar endurútgefnar á næsta ári á vínyl og líklega ný lög með því. Alltaf stuð!

Skrifaðu ummæli