Valin ein af 100 bestu plötum Íslandssögunnar

0

Fyrir um viku síðan hófst miðasala á tónleika með hljómsveitinni Ensími í tilefni þess að 20 ár eru liðin síðan fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Kafbátamúsík, kom út. Þetta átti að vera látlaus miðasala sem átti m.a. að gefa velunnurum tækifæri á að setja miða á tónleikana og áritaðar vínylplötur í jólapakkann en skemmst er frá því að segja að miðasalan rauk af stað og seldist fljótt upp á viðburðinn.

Til þess að mæta eftirspurn og þeim fjölmörgu beiðnum sem hljómsveitinni hafa borist hefur verið ákveðið að bjóða upp á aukatónleika sama dag og munu þeir hefjast kl. 20 í Iðnó 15. mars 2019.

Miðasalan hófst miðvikudaginn 5. desember á Miði.is. Einnig er hægt að versla miða á tónleikana á Akureyri, sem fara fram 16. mars kl. 22:00 á Græna hattinum.

Árið 1998 kom út fyrsta plata þá óþekktrar hljómsveitar að nafni Ensími. Platan fékk heitið Kafbátamúsík og varð fljótlega mjög áberandi í íslensku tónlistarlífi. Lögin Gaur, Arpeggiator og Atari urðu vinsæl á öldum ljósvaka, en það síðastnefnda var valið „Lag ársins” á Íslensku tónlistarverðlaununum og hljómsveitin valin „Nýliði ársins.“

Kafbátamúsík var valin ein af 100 bestu plötum Íslandssögunnar í samnefndri bók sem kom út árið 2009 og tekin saman af þeim Jónatan Garðarssyni og Arnari Eggert Thoroddsen.

Kafbátamúsík hefur lifað góðu lífi en verið ófáanleg í geisladiskaformi (cd) í mörg ár. Það er því gleðiefni að nú sé hún fáanleg á vínyl í öllum betri hljómplötuverslunum.

Í tilefni 20 ára útgáfuafmælisins mun Ensími leika Kafbátamúsík í heild sinni á tvennum tónleikum í Iðnó 15. mars og á Græna hattinum 16. mars. Einnig mun sveitin leika vel valin lög af farsælum útgáfuferli sveitarinnar og jafnvel frumflytja ný lög af væntanlegri breiðskífu.

Skrifaðu ummæli