ÚTTEKT Á ICELAND AIRWAVES 2016

0
andri aur 2

Andri Már Arnlaugsson kíkti á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves fyrir hönd Albumm.is

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fór fram í hvorki meira né minna en sautjánda árið í röð daganna 2. – 6. Nóvember víðsvegar um miðbæ Reykjavíkur. Mikill spenningur sveif yfir miðbæ Reykjavíkur, nánast hálfgerð karnival stemning, þar sem heyra mátti tónlist úr hverjum krók og kima í miðborginni.

Ég kickstartaði hátíðinni í Silfurbergi í Hörpu á hinum frábæra og síðhærða katta elskandi friðarsinna og rappara Kött Grá Pjé. Akureyringurinn frumlegi fer sínar eiginn leiðir og lætur sig lítið varða tískustrauma hip hop tónlistar í dag en með honum á sviði var Heimir úr rapp grúppunni eftirminnilegu Skyttunum. Flott samspil á milli þeirra! Beittir og pólitískir textar hans voru frábærir „getum ekki tekið fleiri sýrlendinga því við þurfum meira súrdeigsbrauð,“ brilliant! Það er eitthvað í vatninu á Akureyri svo nokkuð er ljóst!

_joe8130

Sigga Soffía og Jónas Sen spunnu saman verulega fallegt atriði í sal Kaldalóns en Sigga Soffía fór algjörlega á kostum í dansi sínum, afskaplega flott og heillandi stelpa. Hún greip svo í míkrafóninn og tók eitt rapp lag um líf hennar sem var alveg æðislegur endir á þessum óvænta dans og hljóð gjörningi hjá þessu skemmtilega tvíeyki.

Ambátt er nýlegt verkefni á milli þeirra Pan Thorarensen og gítarleikarans Þorkels Atlasonar. Ambátt spiluðu ásamt stóru bandi í Iðnó þetta kvöldið sem skipað var trommuleikaranum Benjamín Bent Árnasyni, trompetleikaranum þýska Sebastian Studnitzky, bassaleikaranum Helga Egilssyni og Katrínu Mogesen sem söng eitt lag sem var hápunktur þeirra tónleika.

Iðnó er eitt af þessum tónleikastöðum sem hafa þennan góða og notalega anda sem hentaði vel undir þessa tónleika. Maður sveif inn í jazz skotinn raf heim þeirra, hljóðheim sem er í anda þessara verkefna sem að Pan hefur unnið í (Stereo Hypnosis og Beatmakin Troopa). Þess má til gamans geta að Ambátt gaf út sjö laga plötu sem kom út á vínyl og stafrænu formi nýverið sem að ber heitið „Flugufen“ og mæli ég eindregið með að fólk kíki á hana.

_joe8874

Ég endaði svo þetta fyrsta kvöld mitt á Nasa en þar léku fyrir dansi groove og soul pörupiltarnir í Moses Hightower. Gaman var að labba inn á Nasa eftir nokkra ára viðveru og ekki laust við smá nostalgíu þegar ég labbaði inn. Mosesinn gerði það seim þeir gera best, að láta manni líða vel og láta mann dilla á sér mjöðmunum við flotta spilamennsku þeirra. Virkilega notalegt að enda þetta fína fyrsta kvöld Iceland Airwaves á Nasa.

Fimmtudagur 03. Nóvember

Á degi tvö var allskonar góðgæti á boðstólnum og ákvað ég að byrja kvöldið í Listsafni Reykjavíkur. JFDR steig á svið en það er nýtt verkefni hinnar harðduglegu tónlistakonu Jófríði Ákadóttur úr Samaris og Pascal Pinion.
Ég hafði heyrt upptökur frá live flutningi þeirra á KEXP og var verulega spenntur að sjá þau koma fram eftir það sem ég hafði heyrt.

Fimm saman á sviðinu fóru þau fram úr mínum hæstu væntingum! Ég stóð dolfallinn með gæsahúð alla tónleikana þeirra. Rödd Jófríðar er svo yndislega hrein og einstök að erfitt er að hrífast ekki með henni. Skemmtilegt var að sjá og heyra hvað lögin hennar eru mismunandi og ég hugsaði afhverju er ekki troðið! Kanski var það hversu snemma hún spilaði og hve margt var í gangi sem að orsakaði það að ekki var mjög fjölmennt.

Næst á svið var Julia Holter en á þessum tímapunkti var orðið býsna fjölmennt og ljóst var að margir voru komnir til þess að bera hana augum. Julia er orðinn býsna þekkt en ég hef fylgst nokkuð vel með henni síðastliðin þrjú ár. Ég stóð töluvert aftarlega í salnum og hljóðið var alls ekki nægilega gott til þess að maður náði að njóta sín en varð þó ögn skárra þegar framar var komið. Hún fór víða í sínum flutningi, skemmtilegir spuna kaflar á milli þess að vera hreinræktað popp.

Flott flétta af vel sömdum popp lögum í bland við framúrstefnulegar pælingar, gaman að loksins fá að sjá þessa flottu listakonu koma fram hér á landi, og eflaust ekki í síðasta skiptið sem ég mun sjá hana koma fram!

img_4282

Svölu kettirnir í Fufanu eru búnir að vera að túra og spila víðsvegar um heiminn og það mátti svo sannarlega heyra á spilamennsku þeirra. Þegar ég gekk inn í sal Silfurbergs í Hörpunni voru þeir akkúrat að byrja á laginu „Sports“ en þeir sendu nýverið frá sér stórgott myndband við það lag.

Virkilega flott lag sem ég hef verið með í spilaranum síðustu vikur. Attitude þeirra minnir á bönd eins og Stone Roses og Primal Scream. Flott vídeóverk batt þetta svo saman.

Tonik Ensamble (Anton Kaldal) einn af duglegustu raftónlistarmönnum landsins þó víða væri leitað en hann kom fram í Kaldalón sal í Hörpu ásamt tónlistarmanninum Jóni Þór Ólafssyni og hinni goðsagnarkenndu Röggu Gísla sem kom skemmtilega á óvart! Hafði ekki hugmynd um að hún hafi stokkið um borð með þeim.

Anton Kaldal er stöðugt að þróa hljóðheim sinn, slípa til, prófa sig áfram og þreifa fyrir sér í tónlistarsköpun sinni. Tónleikarnir voru lágstemmdir en í senn fengu þeir mann til þess að langa að dilla sér eilítið með. Kaldalón hentar fullkomlega undir raftónlist að mínu mati, hljómburðurinn þar inni er alveg til fyrirmyndar.

Föstudagur 04. Nóvember

Helgin var runnin upp og var fyrsti viðkomustaður kvöldsins Gamla Bíó á hinu langlífandi bandi Stafrænn Hákon. Þeir hafa verið starfandi með hléum frá árinu 1999 sem verður að teljast býsna gott. Ég þekki til þeirra þó eg hafi ekki hlustað mikið á þá í gegnum tíðina en þeir eru með flottann post rock hljóm sem að minnir óneitanlega á bönd á borð við Mogwai (Þeir hafa eflaust heyrt þetta áður).

Bandaríska hljómsveitin Warpaint var vafalaust eitt af aðal böndum hátíðarinnar þetta árið. Skipað einungis konum sem að mér fannst verulega gaman að sjá. Ótrúlegur kraftur í þeim saman uppi á sviði í pakkfullum sal Silfurbergs.

Trommuleikari sveitarinnar fór gjörsamlega á kostum og í raun þær allar og áttu þær salinn frá byrjun til enda!

img_4127

Þá var kominn tími á smá dans og varð Gamla Bíó þá fyrir valinu með hörku uppröðun en fyrra bandið sem ég sá af tveimur var hinn bráðskemmtilegi Berndsen.

Berndsen er hinn íslenski John Maus að mínu mati. Gripandi 80´s skotnir synthar og melódíur. Davíð Berndsen hefur vafalaust byggt upp sinn eiginn hljóm og er orðinn verulega góður í að semja lög sem eru einstaklega grípandi og með þennan undirliggjandi nostalgíu hljóm sem að minnir á Kratwerk, John maus og Human League. Félagi hans Berndsen Hermigervill tróð upp strax á eftir honum.

Ég hef séð Hermigervil spila Live býsna oft og hann hefur aldrei brugðist mér. Orkumikill tónlistar mógull sem gefur allt í flutning sinn með nánast heilt stúdíó uppi á sviði. Spilandi á allt sem hendur hans ná yfir og slammandi í takt við tónlistina sína sem rífur allt í gang. Hermigervil for pres!

Kvöldið var svo endað í sveittum dansi á Gauk á Stöng með drum&bass crewinu RVK DNB. Agzilla, Plasmic og Elvar tóku okkur í ferðalag um heima nýrrar og eldri jungle og drum&bass tónlist eins og þeim einum er lagið!

Laugardagur 04. Nóvember

Ég hafði ekki séð hann Halldór Eldjárn spila sóló efnið sitt áður og ákvað því að byrja kvöldið á honum í Gamla Bíó. Róleg og notaleg stemning var í salnum en fremur fámennt enda klukkan ekki margt. Halldór sat við trommusett sitt og spilaði verulega einbeittur á svip (hafði ekki hugmynd um að hann væri að spila á trommur og hvað þá svona vel)

Ásamt Halldóri var honum til halds og trausts bróðir hans og Apparatt Organ Quartet meðlimurinn Úlfur Eldjárn. Halldór er greinilega mjög fjölhæfur og gaman var að sjá þessa nýju hlið á honum. Úlfur skilaði sínu vel og spilaði hann á hljóðgerfla og tvinnaðist þetta afar flott saman. Hlakka til að heyra meira frá þeim.

img_2249

Liima er nýtt verkefni dönsku hljómsveitarinnar Efterklang sem er og hefur verið lengi í miklu uppáhaldi hjá mér. Ásamt þeim var Finnski ásláttar brjálæðingurinn Tatu Rönköö sem er aldeilis góð viðbót fyrir þá.

Ég hafði rekist fyrr um kvöldið á þá kappa og þeir sögðust vera verulega spenntir fyrir að spila þetta nýja efni fyrir gestina. Þetta reyndust vera þeir tónleikar sem að stóðu algjörlega upp úr á hátíðinni að mínu mati. Troðfullur Nasa var alveg með á nótunum, og gleðinn í meðlimum Liima smitaði útfrá sér. Tatu Rönköö sá um að framkalla takta úr alskyns óhefðbundum hlutum sem og dósir og einhverskonar nýaldar útgáfur af bongó trommum. Það ætlaði allt um koll að keyra þegar þeir tóku síðasta lagið sitt og þeir virtust vera nánast í sjokki með viðtökurnar sem þeir fengu.

Ef þið hafið ekki kíkt á Liima gerið það strax! Hápunktur hátíðarinnar að mínu mati án efa!

Rúsínan í pylsuendanum var að strax á eftir þeim spilaði Dj Yamaho fyrir trylltan lýðinn og maður hélt að þetta gæti ekki orðið meira brjálað en þá kemur Natalie og hreinlega drekkir fólki í djúpum taktföstum töktum eins og hún er þekktust fyrir.

img_4535

Ég varð að enda kvöldið á Húrra að sjá elskuna mína og brjálæðingin hann Futuregrapher. Hvað er hægt að segja um hann sem er ekki búið að segja! Við getum a.m.k. sagt að hann Árni Grétar gefur allt í flutning sinn svo ekki minna sé sagt. Þetta rennur í blóðinu hans og hann fór mikinn á Húrra þegar að gleðinn stóð hvað hæst á þessu Laugardagskvöldi á Airwaves.

Með dans og brosverki fór ég heim í ból þreyttur en ánægður með þetta aldeilis frábæra og vel lukkaða Laugardagskvöld.

Skipulagið í ár var algjörlega til fyrirmyndar og greinilegt er að það var mikið hugsað út í hvernig best væri að dreifa böndunum til þess að raðir myndu ekki eyðileggja fyrir hátíðargestum. Allt heppnaðist alveg afskaplega vel og á hverjum stað var úr nægu að velja og tíminn fór í að njóta en ekki að bíða úti í kuldanum. Andrúmsloftið yfir þessa pökkuðu fimm daga dagskrá einkenndist af eintómri gleði og spenningi, bæði hjá tónlistarunnendum og hljómsveitunum sjálfum. Enn ein frábær Airwaves að baki!

Ég vil koma miklu þakklæti til allra þeirra sem komu að hátíðinni á einhvern eða annan hátt og skapa frábærar minningar fyrir okkur öll sem mættum og eða spiluðu.

Hlakka til að ári liðnu!
Takk fyrir mig.
Andri Már Arnlaugsson

Comments are closed.