UNGT GÖTUTÍSKUMERKI OG RÓTGRÓIÐ ÚTIVISTARMERKI LEIÐA SAMAN HESTA SÍNA

0

Í dag, miðvikudaginn 24. maí, klukkan 17.00 kynna Cintamani og íslenska götutískumerkið INKLAW vörulínuna INKLAW X Cintamani í flagskipsverslun Cintamani í Bankastræti 7.

Samstarfið má rekja til þátttöku beggja fyrirtækjanna í Reykjavík Fashion Festival. Samtal hófst í kjölfar þátttökunnar og fljótlega fóru Cintamani og INKLAW að skiptast á hugmyndum og þekkingu auk þess sem að INKLAW opnuðu svokallaða pop-up verslun í Bankastrætinu og fengu þar með tækifæri til þess að selja vörur sínar í fyrsta skipti í raunheimum, en merkið hefur eingöngu nýtt sér netið til þess að selja vörur sínar fram til þessa.

Nú er komið að því að dýpka samstarfið enn frekar því strákarnir í INKLAW hafa undanfarið unnið að því í samstarfi við Cintamani að setja svip sinn á nokkrar af vörum fyrirtækisins. Útkoman er bæði spennandi og glæsileg, enda er það ekki á hverjum degi sem rótgróið útivistarmerki hefur samstarf með ungu götutískufyrirtæki. Flíkur INKLAW eru allar handgerðar og mynstrin handmáluð með málningu og gefst viðskiptavinum því ekki einungis kostur á að nálgast á hágæða útivistarfatnað heldur einnig einstaka hönnunarvöru – allt í sömu flík.

INKLAW X Cintamani línan verður kynnt á morgun í Bankastræti 7 klukkan 17.00. Léttar veitingar og ljúfir tónar – öll velkomin!

INKLAW var stofnað af vinunum Róberti Ómari Elmarssyni og Guðjóni Geir Geirssyni í Hafnarfirði árið 2013 þegar þeir voru nítján ára gamlir. Í dag eru aðstandendur merkisins fjórir en auk Róberts og Guðjóns eru Anton Birkir Sigfússon og Christopher Cannon einnig í starfsmannahópnum. Áherslan er lögð á minimalískar og áreynslulausar flíkur sem eru samtímis einstakar og auðþekkjanlegar.

Inklaw hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á markaðsetningu á samfélagsmiðlum og byggt upp sterkan fylgjendahóp, til að mynda á Instagram. Merkið hefur í dag selt vöru sína til yfir 60 landa og hafa fjölmargar stjörnu klæðst flíkum frá merkinu, sem dæmi má nefna poppstjörnuna Justin Bieber.

Inklaw Instagram

Upphaf Cintamani má rekja til ársins 1989 en þá var grunnurinn að vörumerkinu eins og við þekkjum það í dag lagður. Fyrsta framleiðsla Cintamani fór fram í lítilli verksmiðju á Akureyri. Fötin voru upphaflega aðeins seld í Skátabúðinni og vakti fatnaðurinn þá þegar athygli íslenskra útivistargarpa. Markmiðið var að hanna íslenskan útivistarfatnað í hæsta gæðaflokki sem stæðist þær erfiðu veðuraðstæður sem einkenna Ísland. Vörurnar eru þrautreyndar af íslensku útivistarfólki og er mikil áhersla lögð á stöðugt gæðaeftirlit. Rík áhersla er lögð á að uppfylla allar reglur, staðla og fyrirmæli um umhverfiskröfur og framleiðslu.

Cintamani Instagram

Skrifaðu ummæli