„UNDER THE BRIDGE“ VAR SPILAÐ VIÐ MIKINN HÓPSÖNG

0

Hin goðsagnarkennda bandaríska hljómsveit Red Hot Chili Peppers komu hingað til lands síðastliðinn mánudag og spiluðu í Laugardalshöll ásamt íslensku hljómsveitinni Fufanu sem sáu um upphitun. Red Hot Chili Peppers er án efa ein af allra þekktustu hljómsveitum heims síðustu 30 árin. Kapparnir voru að enda 16 mánaða tónleikaferð sína um heiminn hér í Reykjavík, sem mér fannst býsna gaman að heyra frá einum hressum aðdáandanum í höllinni.

Þegar ég labbaði inn í Laugardalshöllina vissi ég í raun ekki við hvaða fjölda ég ætti að búast við á tónleikunum, það var ekki mikið búið að fara fyrir auglýsingum á þessa tónleika. Mig grunaði að það yrði fjölmenni en ekki jafn mikið fjölmenni og blasti við mér, ætli það hafi ekki verið um 10 þúsund manns allt í allt á báðum svæðunum (A og B) þetta mánudags sumarkvöld.

Strákarnir í Fufanu voru byrjaðir að spila þegar ég labbaði inn í höllina. Umfangið var verulega mikið og blöstu við mér tveir stórir skjáir með grafík Fufanu á sem kom verulega flott út, minimal og töff hvítt logo hljómsveitarinnar á svörtum bakgrunni. Fufanu hafa spilað víðsvegar um heiminn síðustu mánuði og það mátti algjörlega heyra á þeim, fullkomið öryggi og vel slípaður tónn þeirra sýndi afhverju þeir eru klárlega eitt af bestu böndum landsins í dag. Lagið „Sports” er í sérstaklega miklu uppáhaldi og finnst mér það lag ná algerlega utan um þetta sound sem að þeir eru komnir með.

Um klukkutíma síðar stigu svo Anthony Kiedis, Chad Smith, Josh Klinghoffer og bassa goðsögnin Flea á svið við gríðarlega mikinn fögnuð allra viðstaddra, og ekki var laust við að þarna var samankominn mjög fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri sem hlakkaði mikið til að sjá Los Angeles kempurnar spila.

Ég hlustaði mikið á og hélt mikið upp á plötuna „Blood Sugar Sex Magic” þegar hún kom út fyrir 26 árum síðan, en áttaði mig ekki á því hversu mörg önnur lög þeir áttu, sem ég mundi enn eftir þrátt fyrir að hafa ekki heyrt þau í talsvert mörg ár. Sérstaklega gaman fannst mér að sjá gítarleikarann Josh Klingoffer (sem hefur víst verið í bandinu aðeins síðustu 10 árin) halda uppi orkumikilli stemmningu á sviðinu.

Hápunktinum var svo náð þegar „Under the Bridge” var spilað við mikinn hópsöng nánast allra viðstaddra, (ég heyrði útundan mér að þeir tækju það lag afar sjaldan nú orðið á tónleikum og því var fögnuðurinn mikill). Red Hot stikluðu á stóru af löngum ferli sínum og það var ekki að sjá að þeir væru að enda þetta 16 mánaðar tónleikaferðalag sitt því að þeir keyrðu úr einum slagaranum í næsta og gerðu það vel. Ákveðinn hápunktur var síðan að heyra „Give it away” sem eitt af þremur uppklappslögum. Lag sem mér finnst vera þetta Red Hot Chili Peppers sound sem ég man hvað mest eftir sem 12 ára gamall pjakkur.

Góð stemmning var í höllinni allan tímann og dyggir aðdáendur sveitarinnar telja greinilega enn í þúsundum hérlendis. Allt í allt var vel að þessum viðburði staðið og gaman að sjá þetta band loksins spila hérlendis eftir öll þessi ár.

Takk kærlega fyrir mig!

Andri Már Arnlaugsson.

Skrifaðu ummæli