Una Stef og hljómsveit á Múlanum

0
Á næstu tónleikum vordagskrár Jazzklúbbsins Múlans, á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, miðvikudaginn 21. mars kemur fram hljómsveit söngkonunnar Unu Stefáns. Una hefur verið virk í íslensku tónlistarsenunni síðustu ár og átt fjölmörg lög á vinsældarlistum útvarpsrása hér sem og erlendis. Hún er þekkt fyrir sálarríkar lagasmíðar sem eru oftar en ekki djass skotnar. Una var tilnefnd sem söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár og hlaut einnig tilnefningu fyrir lag ársins fyrir „The One“ sem hefur fengið að hljóma víða á öldum ljósvakans síðustu misseri.
Una steig fyrst fram á sjónarsviðið árið 2014 þegar hún gaf út sína fyrstu plötu Songbook, hún vinnur nú að nýrri plötu en öll sýnishorn af plötunni hafa skotið sér beint á vinsældarlista útvarpsstöðva. Á efnisskránni verður efni eftir Unu sjálfa og þar af frumflutningur á nýju efni en örfá tökulög fá að læðast með. Ásamt Unu koma fram: Daníel Helgason – gítar, Baldur Kristjánsson – bassi, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir – trommur, Elvar Bragi Kristjónsson – trompet, Sólveig Morávek – tenór saxófónn og Albert Sölvi Óskarsson – baritón saxófónn.
Alls verða sextán spennandi tónleikar á dagskránni flesta miðvikudaga fram til 23. maí. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2500, 1500 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is
Múlinn er að hefja sitt 22. starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Skrifaðu ummæli