UGGLA SENDIR FRÁ SÉR PLÖTU OG SAFNAR FYRIR VÍNYL ÚTGÁFU

0

Út er komin fyrsta hljómplata hljómsveitarinnar Ugglu. Platan nefnist Straumur og inniheldur fjögur lög. Platan var tekin upp í Aldingarðinum hjá Magnúsi Leifi Sveinssyni sem sá um upptökur, hljóðblöndun og masteringu.

Uggla samanstendur af söngvaranum og gítarleikaranum Valdimar Þór Valdimarssyni, Kjartani Orra Ingvasyni sem leikur á gítar og munnhörpu, trymblinum Kjartani Þórissyni og bassaleikaranum Viðari Hrafni Steingrímssyni.

Lagið „Hillerød“ hefur verið að fá ágætis spilun á Rás 2 og náði það inn á topp 10 á vinsældalistanum! Lagið er eftir Valdimar Þór Valdimarsson og er samið um ímyndað ástarsamband við stúlku í Hillerød lestinni. Andrés Þór Gunnlaugsson leggur Ugglu lið í laginu með leik á pedal steel, dobro og banjó.

Lagið „Leið A“ er eftir Viðar Hrafn Steingrímsson. Lagið er samið fyrir nokkuð löngu síðan og þá sem hálfgerð ballaða en þegar Uggla klófesti það hrökk lagið í kántríbúning. Andrés Þór leikur einnig með í Leið A.

Lagið „Sit í svörtu húmi“ er er jazzskotið popplag eftir Valdimar Þór. Hugmyndin að Sit í svörtu húmi varð til í Neskaupstað og á ensku en virkaði ekki fyrr en íslenskur texti Páls Ólafssonar kom til. Flóki Árnason leikur á Rhodes í laginu.

Síðasta lagið á plötunni er svo „Sing me a song“ sem er eftir Kjartan Orra en textann gerði Valdimar. Rúnar Óskarsson tók að sér að semja lúðraútsetningu fyrir Sing me a song og þeir Andrés Björnsson og Brynjar Óskarsson leika á trompet, flygilhorn og básúnu.

Uggla stendur fyrir söfnun á Karolina Fund til að koma plötunni á vínyl og yrði afskaplega þakklát fyrir stuðning!

Skrifaðu ummæli