TUDDAROKK, HRESSLEIKAPOPP OG DASS AF BOSSANOVA

0

Hljómsveitin Tálsýn var að senda frá sér sína fyrstu plötu en hún inniheldur fjögur lög og flokkast því sem Ep eða stuttskífa. Platan ber einfaldlega heitið Ep1 og er hreint út sagt stórkostleg!

Albumm.is náði tali af sveitinni og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um plötuna!

Er platan búin að vera lengi í vinnslu?

Já og nei, Þessi ep plata er í raun skipuð fyrstu fjóru lögunum sem við semjum saman og varð t.d lagið „Þú getur” til á fyrstu æfingunni sem við spilum saman. Það er engin ein stefna sem ræður ríkjum, við erum enn að leita að henni. Lögin eru mjög mismunandi, það er smá tuddarokk, smá hressleikapopp og jafnvel dass af bossanova. Þessi fjögur lög marka því fyrstu skref Tálsýn og um leið er hún fyrsta platan í ep trilogíu. Við erum að þróast og markmiðið er að skrásetja það ferli á þremur ep plötum.

Hvaðan fáið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun

Varðandi tónlistina er innblástur ekki rétta orðið, útblástur væri nærri lagi. Hljómsveitin er starfrækt til þess að við fáum útrás fyrir sköpunargáfu og spilagleði sem við höfum í massavís. Við þurfum ekki innblástur, við þurfum bara að búa til lög. Það er frumhvöt. Innblásturinn fyrir textana kemur hvaðan sem er, frá heimspeki, pólitík eða úr daglegu lífi.

Lýsið plötunni í níu orðum:

Frumraun, Samhljómur, Jákvæðni, Frelsi, Tálsýn Gítar, Trommur, Bassi & Söngur

Á að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi?

Nei það er ekki planið þar sem Þessi fyrsta ep plata sé í rauninni hljómsveitin að ná upp tempóinu, koma blóðinu af stað. En á næstu plötu förum við aðeins að hnykkla vöðvana og í kjölfarið gefa í tónleikahald. Við erum strax farnir að vinna að Ep2 og stefnum á upptökur í ágúst.

Eitthvað að lokum?

Þessi þríleikur af ep plötum er í rauninni saga ungrar sveitar sem er að leita að sínum hljóm. Það á að vera greinanlegur munur á milli platnana í lagasmíðum og hljóm, þetta er þroskasaga. Eftir að við höfum gert þriðju ep plötuna munum við vita hvernig tónlist Tálsýn vill spila!

Hér fyrir neðan má hlíða á plötuna í heild sinni:

Einnig er platan á Soundcloud.

Skrifaðu ummæli