TRANSATLANTIC TRÍÓ KEMUR FRAM Á MÚLANUM Í KVÖLD

0

mulinn

Á næstu tónleikum Múlans á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu, í kvöld miðvikudaginn 23. nóvember, kemur fram Transatlantic Tríó, tríó danska gítarleikarans Peter Tinning. Tríóið var stofnað árið 2013 og gaf út sinn fyrsta geisladisk árið 2015. Tónlistin, sem er öll samin af Peter er lagræn og hlý, uppfull af norrænu andrúmslofti þar sem allir þrír tónlistarmennirnir skila sínu á áreynlsulausan en þó óvæntan hátt. Diskurinn hefur víða hlotið góða dóma gagnrýnenda. Ásamt Peter eru meðlimir tríósins þeir Þorgrímur Jónsson sem leikur á bassa og trommuleikarinn Scott McLemore.

peter-tinning-mynd-rolando-diaz

Haustdagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram til 7. desember á Björtulöftum, Hörpu. Flestir af helstu jazzleikurum þjóðarinnar ásamt nokkrum erlendum gestum koma fram í dagskrá haustsins, m.a. Tómas R Einarsson, Sigurður Flosason, Einar Scheving, Þorgrímur Jónsson, Ari Bragi Kárason, Kjartan Valdemarsson, Haukur Gröndal og Jóel Pálsson ásamt Peter Tinning og bandarísku goðsagnarinnar, bassaleikaranum Chuck Israels.

Múlinn er á sínu 20. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Skrifaðu ummæli