TÓNVER TÓNLISTARSKÓLA KÓPAVOGS ER 20 ÁRA OG EFNA TIL AFMÆLISTÓNLEIKA 20. APRÍL

0

TÓNVERK

Í tilefni þess að rúm 20 ár eru síðan Tónver Tónlistarskóla Kópavogs tók til starfa munu Salurinn í Kópavogi og Tónlistarskóli Kópavogs efna til afmælistónleika þann 20.apríl nk. (síðasta vetrardag) kl.20.00 og er aðgangur ókeypis.

Í FARARBRODDI Í YFIR 20 ÁR

Árið 1995 var Tónver Tónlistarskóla Kópavogs opnað í kjallara húsnæðis TK í Hamraborg 11. Þar gafst nemendum tækifæri að semja og flytja raftónlist með aðstoð tölva og hljóðgervla. Frumkvæði að stofnun tónversins höfðu þeir Hilmar Þórðarson og Ríkharður H. Friðriksson, og nutu þeir hvatningar og velvilja skólastjóra tónlistarskólans, Fjölnis Stefánssonar. Tónver Tónlistarskóla Kópavogs hefur svo vaxið og dafnað og er í dag fullkomið hljóðver útbúið öflugasta og besta hljóðbúnaði sem völ er á – og hefur frá upphafi verið eitt best búna kennsluhljóðver landsins. Kennt er á öll vinsælustu tónlistarforrit dagsins í dag og auk þess fræðast nemendur um sögu raftónlistar, læra upptökutækni, hljóðgervlaforritun og margt fleira. Markmið með náminu er að þjálfa nemendur í að nota tölvu sem aðalhljóðfæri og leggja öflugan grunn að námi á háskólastigi og starfi þeirra sem „tölvutónlistarmenn“. Námið er á framhaldsnámsstigi í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla. Nemendur tónversins hafa frá upphafi komið úr ólíkum áttum – og eftir nám hafa þeir jafnframt dreift sér vítt og breitt um jarðir tónlistarsenunnar og margir hverjir gert það afar gott.

Kira Kira

Kira Kira

FYRRUM NEMENDUR BANKA UPP Á

Það eru einmitt margir af fyrrum nemendum tónversins sem eiga verk á tónleikunum. Má þar nefna Curver Thoroddsen (Ghostdigital), Kiru Kiru, Ragnar Ólafsson (Árstíðir, Ask the Slave), Þórð Kára Steinþórsson (Samaris), Hilmar Bjarnason og Hlyn Aðils Vilmarsson tónskáld. Núverandi nemendur tónversins eiga líka verk á tónleikunum. Útskriftarnemendurnir Einar Indra og Stefán Ólafur Ólafsson eru með sitt verkið hvor og einnig hljóma tónsmíðar Elínar Drafnar Jónsdóttur, Sigrúnar Sifjar Jóelsdóttur og Jóns Friðgeirs Sigurðssonar. Að lokum munu þrír kennarar tónversins, þeir Hilmar Þórðarson, Ríkharður H. Friðriksson og Jesper Pedersen koma fram á tónleikunum með nýjar tónsmíðar.

Einar Indra

SAMSTARF SALARINS Í KÓPAVOGI OG TÓNVERS TK

Frá aldamótum hefur Salurinn í Kópavogi verið aðaltónleikastaður og „heimavöllur” Tónvers Tónlistarskóla Kópavogs, og hefur samstarfið við Salinn alla tíð verið mjög gifturíkt. Tónverið hefur meira og minna haldið alla sína tónleika í Salnum frá því húsnæði Tónlistarskólans í Tónlistarhúsinu var tekið í notkun. Hljómburður Salarins er afar hentugur fyrir raftónlist að því tagi sem unnið er með í tónverinu og vel tækjum búinn til að takast á við flóknar tækniútfærslur. Það er því mikið gleðiefni að ráðast í þessa tónleika enn og aftur í góðu samstarfi skólans og Salarins.

Comments are closed.