TÓNSMIÐJA KÍTÓN Í FULLU FJÖRI Í STYKKISHÓLMI

0

Tónsmiðja KÍTÓN hefur nú átt sér stað tvisvar sinnum við afar góðar undirtektir. Tónlistarkonum var boðið á Patreskfjörð 2014 og svo á Hvammstanga 2016. Svo vel til tókst og svo mikið blómstraði sköpunarkraftur kvennanna sem tóku þátt að ákveðið hefur verið að gera tónsmiðjuna að árlegum framlagi KÍTÓN, og í ár verði hún haldin í Stykkishólmi. Umsóknir voru opnaðar í byrjun apríl og lokuðu rétt eftir páska, og bárust 16 umsóknir. Sex konur voru valdar af stjórn KÍTÓN og var það vægast sagt afar erfitt val, enda hæfni umsækjanda með ólíkindum. Þær sem urðu fyrir valinu eru eftirfarandi:

Myrra Rós, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Jana María Guðmundsdóttir, Jelena Ciric, Erla Stefánsdóttir og Margrét G. Thoroddsen.

Tónsmiðja KÍTÓN í Stykkishólmi verður yfir dagana 3.–9. september 2017, og verða lokatónleikar á Fosshótelinu á föstudeginum. Sex konur munu koma saman og dvelja í Stykkishólmi og vinna hörðum höndum að tónlist og textum út vikuna. KÍTÓN sér um verkefnastjórn sem og að skaffa húsnæði, vinnuaðstöðu og fæði út vikuna. Yfir dvöl sína munu þær einnig heimsækja leikskólann, grunnskólann og tónlistarskólann og fleiri staði þar sem áhrifa þeirra gætir og geta leitt til innblásturs fyrir ungar konur á svæðinu. Allt ferlið verður kvikmyndað og sýnt á RÚV í kjölfarið, auk þess sem stefnt er að því að nokkur laganna verði gefin út í kjölfarið og samhliða útgáfu myndarinnar.

Verkefnið í heild sinni er því mikil vítamínsprauta inn í bæjarfélagið og kynning á sveitarfélaginu, þar sem KÍTÓN hefur mikinn sýnileika og mun heimildarmyndin og útgáfa hljóðritanna svo sannarlega auka við kynninguna.

Við eigum aldrei nóg af kvenkyns fyrirmyndum í tónlist, og úr því bætir verkefnið. Einnig mun Stykkishólmur eflaust skilja mikið eftir sig í hjörtum stelpnanna, enda er það mikilvægt þegar maður kemur á nýjan stað að lenda aðeins, líta í kringum sig, taka inn og upplifa og gefa sér tíma í að bara vera. Að auki er mikilvægt að sjá sjálfan sig sem part af samfélaginu, og þannig öðlast virðingu, traust og skilning þeirra sem þegar eru þátttakendur þess og öfugt. Slíkt hefur verið mikil áhersla hjá KÍTÓN og hafa stelpurnar verið mjög sýnilegar á þeim stöðum sem tónsmiðja KÍTÓN hefur verið á, hingað til.

Það er einmitt þetta sem KÍTÓN stendur fyrir – að virkja tengslanet og tengingar tónlistarkvenna, að gera starf þeirra og tónsmíðar sýnilegar og virka sem stuðningsnet fyrir þær inn í bransann. Það er okkar trú að þessi vinnuvika og tónleikar þjóni þeim tilgangi. Í því felst til dæmis menningarlegt og samfélagslegt gildi verkefnisins.

Facebook viðburðinn má sjá hér

Kiton.is

Skrifaðu ummæli