Tónlistarlega séð er Nivalis bræðingur af rótgrónum einkennum sveitarinnar

0

Í dag föstudag 22. júní sendir hljómsveitin Árstíðir frá sér sína 5 hljóðversplötu Nivalis. Hljómsveitin hefur margar ástæður til að fagna þessa dagana. Sveitinn verður tíu ára í sumar og hefur nýverið nælt sér í plötusamning hjá Fransk/bandaríska útgáfufyrirtækinu Season of Mist sem sér um að gefa út Nivalis.

Latneska orðið Nivalis merkir að eitthvað sé “eins og snjór” og er t.a.m. notað sem viðskeyti á plöntur sem vaxa upp úr snjó en hljómsveitinni fannst tilvalið að vinna með andstæðurnar og gefa út plötuna í kringum sumarsólstöður.

Í byrjun kom til greina að skýra bandið Nivalis en þrátt fyrir að fallið hafi verið frá því þá hélst nafnið sem gælunafn í kringum hljómsveitina og rekstur hennar. Upphaflega voru meðlimir þrír en síðan þá hafa nokkrir meðlimir komið og farið. Núna eftir 10 ára vinnu eru meðlimir orðnir þeir sömu þrír og í upphafi og því fannst bandinu tilvalið að leita aftur til fortíðar í þetta nafn sem hefur alltaf fylgt þeim. Hægt er að líta á þetta sem einhverskonar nýtt upphaf

Tónlistarlega séð er Nivalis bræðingur af rótgrónum einkennum sveitarinnar, eins og rödduðum söng, kassagítarleik, píanó og strengjum, og nýrra þátta sem þróuðust í tónverinu, en hljómsveitin nostraði við hljóðheiminn á Nivalis í næstum því heilt ár.

Árstíðum til halds og trausts við gerð Nivalis var færeyingurinn Sakaris Emil Joensen, sem pródúseraði plötuna ásamt meðlimum hljómsveitarinnar. Sakaris flutti til Íslands á síðasta ári frá Færeyjum en síðan þá hefur hann verið að ryðja sér til rúms innan íslensku tónlistarsenunnar sem upptöku og útsetningarstjóri.

Sakaris hefur grunn sinn í raftónlist og samstarfið setti mikinn svip á útsetningar og upptökur laganna. Árstíðir hafa unnið með Sakaris áður, en sá síðarnefndi endurhljóðblandaði lagið „Ljóð í Sand” með hljómsveitinni fyrir EP plötuna Tvíeind sem kom út árið 2012.

Skrifaðu ummæli