TÓNLISTARKONURNAR BLÁSKJÁR, ÍRIS OG GRÚSKA BABÚSKA TAKA YFIR BAR 11 ÞANN 10. JÚNÍ

0

grúska babúska

Það verður sannkölluð tónlistarveisla á Ellefunni næstkomandi föstdagskvöld þegar tónlistarkonurnar Bláskjár, ÍRiS og hljómsveitin Grúska Babúska leiða saman hesta sína. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og er aðgangur ókeypis.

Bar11_mynd2 (1)

Bláskjár og ÍRiS eiga það sameiginlegt að vera báðar meðlimir í Grúsku Babúsku.

Bláskjár mun flytja raf-innskotna folk-tónlist af nýútkominni stuttskífu „As I pondered these things“ og ÍRiS mun í kjölfarið taka við með rafrænum og dulúðugum útsetningum af væntanlegri útgáfu. Kvöldinu verður síðan lokað með allsherjar boði í furðuheim Grúska Babúska!

bláskjár

Bláskjár

Bláskjár er hliðarsjálf og sólóverkefni tónlistarkonunnar Dísu Hreiðarsdóttur. Tónlist Bláskjás er blanda af akústískri og elektrónískri alþýðutónlist, þar sem áhersla er lögð á að segja sögur og túlka tilfinningar. Tónlistarkonan gaf út tvær smáskífur á síðasta ári og hefur sú seinni „Silkirein,“ vakið mikla athygli og var meðal annars valið íslenska lag ársins 2015 á tónlistarblogginu Rokmusic ásamt því að komast inná lista yfir 150 bestu lög ársins hjá tónlistarblogginu Beehype. Bláskjár gaf út sína fyrstu EP plötu í maí og ber platan nafnið As I pondered these things. Platan inniheldur 5 lög þar sem tónlistarkonan fjallar um ástina, sorgir og lífið.

Tónlistarkonan ÍRiS skapar dulúðuga raftónlist með draumkenndu ívafi. Röddin, sem lýst hefur verið sem dökkri og dínamískri, leiðir tónlistina áfram með lúppum og effektum sem skapa framlengingu á hljóðheimi raddsviðsins.

íris

Íris

ÍRiS á að baki akústísku hljómplötuna Penumbra, sem kom út árið 2013 við góðar undirtektir, en nafnið vísar í það þegar algjört myrkur og ljós mætast, þegar andstæður í tónlist mætast. Rafrænar útsetningar marka spor að nýrri stefnu og leggja drög að útgáfu á væntanlegri stuttskífu. Efnið var frumflutt á hljómleikaferðalagi um Bretland í marsmánuði síðastliðnum.

Hljóðfæri Grúsku Búbúsku samanstanda af röddum, syntha, gítar, bassa, píanó, melodicu, fiðlu, flautu, spiladós, trommu, töktum, slagverkum auk annara takta og hljóðtækja. Tónlistin færir áhorfandann og hlustandann inn í draumheim, oft gáskafullan og barnslegan, en á sama tíma dimman og þrunginn alvarleika. Þess má geta að Grúska Babúska kom nýlega úr heljarinnar tónleikaferð er sveitin túraði um vestur sveit UK, eða í kringum Bristol, Cardiff og Glastonbury og mun hún snúa aftur til Bretlands á komandi mánuðum til að flytja efni sem og hljóðrita.

Sjá einnig frétt:

GRÚSKA BABÚSKA ER Á BLÚSSANDI SIGLINGU OG HEFUR NÝLEGA SENT FRÁ SÉR FIMM MYNDBÖND

Comments are closed.