TÓNLISTARKONAN HILDUR SKELLTI SÉR Í BAÐ Í BEINNI

0

hildur bað

Tónlistarkonan Hildur kom fram í sjónvarpsþættinum vikan með Gísla Matreini um helgina sem leið og tók hún lagið „I´ll Walk With You“ en lagið er afar vinsælt um þessar mundir. Sviðsframkoman hefur vakið athygli og ekki síst fyrir þær sakir að Hildur gerði sér lítið fyrir og skellti sér í bað í miðju lagi.

I´ll Walk With You er á hraðri uppleið og á án efa eftir að vera eitt heitasta lag sumarsins. Hildur svaraði nokkrum spurningum fyrir Albumm.is

Lagið þitt „I´ll Walk With You“ er að ná töluverðum vinsældum. Áttirðu von á svona góðum viðtökum?

Nei þetta fór í rauninni fram úr mínum björtustu vonum! Ég var búin að semja nokkur lög og ákvað að velja að gefa fyrst út það lag sem væri mest grípandi. Mig langaði að reyna að stimpla mig inn í undirmeðvitundina hjá fólki með því að búa til lag sem það eiginlega ósjálfrátt raulaði með – og það virðist hafa virkað! En nei að öllu gríni slepptu er þetta búið að vera frábært, bæði lagið og vídeóið fengu ótrúlega góðar viðtökur og það sem kom mér kannski mest á óvart var hversu breiðs hóps það virðist hafa náð til – en það er líka það sem er svo fallegt við popptónlist, hún nær til svo margra!

HILDUR 2 (1)

Þú spilaðir lagið í sjónvarpsþættinum Vikan Með Gísla Marteini um helgina sem leið, af hverju baðkar og hver var pælingin á bakvið það?

Ég vildi fyrst og fremst gera eftirminnilegt atriði sem fólk myndi klóra sér í hausnum yfir og allavega muna eftir!  Ég ákvað að vinna bara með atriði úr myndbandinu við lagið og mér fannst hugmyndin um að fá baðkar á sviðið bara svo ótrúlega góð. Rúv tók fáránlega vel í hugmyndina og í rauninni var fyrsta spurningin sem ég fékk frá þeim eftir að ég bar upp hugmyndina hversu heitt hitastig ég vildi hafa á vatninu! Svo áttu þau svona líka fallegt baðkar í leikmunadeildinni. Mig langaði líka að hafa hundinn sem ég notaði í vídeóinu. Það var smá vesen samt því hún var búin að stækka töluvert frá því síðast og þessvegna var alveg smá tricky að ná að halda á henni með einni hendi og syngja á meðan! En sem betur fer missti ég hana ekki og datt ekki í baðkarinu þannig að allt gekk upp!

Þú ert að spila á tónleikum í kvöld á Húrra ásamt Halleluwah og H. Dór. Við hverju má fólk búast og verður ekki hörkufjör?

Þetta stefnir í þrumustuð! Mér fannst eitthvað mjög spennandi við að hóa saman svona nýjum og ferskum böndum sem pössuðu þó inní sömu rafpopp-senu. Ég hef ekki séð H.dór live en það sem ég er búin að heyra lofar ótrúlega góðu svo að ég er mjög spennt að sjá hann. Halleluwah standa alltaf fyrir sínu – þetta er svo skemmtileg tónlist með frábærri söngkonu. Og svo er ég sjálf mega spennt að flytja efnið mitt aftur. Ég er bara búin að flytja það einusinni og það var á Sónar í febrúar – svo að þessir tónleikar eru  svona  einu skrefi styttra en frumflutningur –en samt eiginlega næstum því!

Hvenær má fólk búast við meira frá þér og er plata í vinnslu?

Ég ætla klárlega að fylgja þessu lagi eftir fljótlega með að gefa út nýtt lag fyrir sumarið. Svo er ég að vinna í EP plötu sem er komin vel á veg, ég ætla bara að gefa þessu smá tíma og rúm til að sjá hvað þróast og hvernig ég vil gefa hana út. Mér finnst mjög ólíklegt að ég fari í að gefa út á áþreifanlegu formi þar sem ég er minn eigin útgefandi og plötuútgáfa er dýrt og deyjandi sport. En ég er mjög spennt að gefa út meira rafrænt sem fyrst!

Comments are closed.