TÓNLISTARHÁTÍÐIN MYRKIR MÚSÍKDAGAR HEFST FORMLEGA Á FIMMTUDAGINN

0

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar hefst formlega fimmtudaginn 25. janúar með hátíðartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg, þar sem Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari og Sæunn Þorsteinsdóttir, sellóleikari munu spila ný verk eftir Hauk Tómasson og Pál Ragnar Pálsson. Á meðal listamanna á hátíðinni eru Nordic Affect, Caput, Trondheim Sinfonietta, Kammersveit Reykjavíkur og Stirni Ensemble.

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands sem vettvangur fyrir íslensk tónskáld til að fá verk sín flutt. Tónlistarhátíðin fer fram á myrkasta tíma ársins en áhersla hátíðarinnar er einna helst að flytja og kynna samtímatónlist með áherslu á nýja, íslenska tónlist og flytjendur í bland við erlend verk og erlenda flytjendur. Hátíðin fer fram í 18. skiptið dagana 25. – 27. janúar nk. í Hörpu og á öðrum minni tónleikastöðum í miðbæ Reykjavíkur. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Gunnar Karel Másson.

Í ár er þriðjungur verka á hátíðinni eftir konur en hlutfallið er almennt ívið lægra á sambærilegum hátíðum, eða um 20%. Markmið Tónskáldafélags Íslands, stofnanda hátíðarinnar, er þó að hækka hlutfallið í 50% á næstu árum. Einnig er eftirtektarvert að stór hluti verkanna í ár er eftir ung tónskáld undir þrítugt. Frumflutningar eru einnig margir á hátíðinni í ár, en yfir 30 verk verða heimsfrumflutt í þetta sinn.

Hátíðin í ár er full af metnaðarfullum og spennandi viðburðum, jafnt fyrir börn og fullorðna, og munu hátíðargestir eiga möguleika á því að upplifa þversnið af því sem ber hæst í samtímatónlist beggja vegna Atlantshafsins á hátíðinni. Einnig fara fram viðburðir fyrir börn á vegum Töfrahurðar þar sem ný barnaópera um Gilitrutt verður meðal annars frumflutt.

Af erlendum flytjendum má nefna The Riot Ensemble sem er einn fremsti samtímatónlistar-hópur í Bretlandi og mun hópurinn meðal annars frumflytja verk eftir Báru Gísladóttur. Hin pólska Elblaska kammersveit verður á tveimur tónleikum á hátíðinni, fyrst á tónleikum í Kaldalóni á fimmtudaginn þar sem lögð verður áhersla á verk eftir pólsk tónskáld. Að lokum kemur sveitin fram á lokatónleikum Myrkra músíkdaga með Kammersveit Reykjavíkur í Norðurljósum þann 27. janúar þar sem leikin verða verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Finn Karlsson, Oliver Kentish, Pál Ragnar Pálsson og Atla Heimi Sveinsson.

Dagskrá og upplýsingar um hátíðina má finna á www.myrkir.is

Skrifaðu ummæli