TÓNLIST, MATUR OG DRYKKIR Í GÖTUPARTÝ

0

image001

TÓNLIST, MATUR & DRYKKIR Í GÖTUPARTÝ

POP-UP BORG OG STÓRTÓNLEIKAR Á HÖNNUNARMARS

Eins og sagt var í fréttatilkynningu þann 5. mars verður blásið til götupartýs næsta laugardagskvöld í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Nú er komið á hreint og frágengið hvaða veitingaaðilar ætla að mæta í pop-up borgina og bjóða gestum uppá fjölbreyttar veitingar á hófsömum verðum. Þetta eru veitingastaðirnir Matur & Drykkur, Ósushi, Bæjarins Beztu, Smurstöðin, Eldur & Ís og Hamborgarabúllan. Þar að auki verða snillingarnir á Barber Bar með glæsilegan hanastélsbar, Kaffitár með espressóbar og svo verða hefðbundnar veigar í boði á ýmsum börum á víð og dreif um safnið. Fólk getur því verið óhrætt við að þræða hina ýmsu viðburði HönnunarMars og mæta þyrst og hungrað í götupartý.

Viðburðurinn, sem lýsa mætti sem götupartý með tónleikum, er stefnumót tónlistar og hönnunar þar sem tónlistarmenn, hönnuðir og arkitektar mætast í pop-up borg framtíðarinnar. Um er að ræða samvinnuverkefni Kraums tónlistarsjóðs og Hönnunarsjóðs Auroru sem síðustu ár hafa unnið með og að framgangi fjölda íslenskra tónlistarmanna og hönnuða, hérlendis sem erlendis.

Í porti Hafnarhússins er verkefnið Hæg breytileg átt með sýningu á HönnunarMars sem varpar ljósi á íbúðir og hverfi framtíðarinnar, en þetta kvöld umbreytist sýningin í lifandi framtíðarborg þar sem á einni götunni er blásið til partýs!

Viðburður: Götupartý – Pop-up borg og tónleikar á HönnunarMars

Staður: Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús
Tími: Laugardagskvöldið 14. mars kl 21:00
Allir velkomnir. Engin aðgangseyrir.

Hljómsveitir og hljómsveitir sem koma fram eru:
Retro Stefson, Sin Fang, Samaris, Snorri Helgason, Bjartey & Gígja úr YLJU, Valdimar Guðmundsson & Örn Eldjárn

Hönnun kvöldsins er í höndum:
Theresu Himmer  og Brynhildar Pálsdóttur

 

Allir út á götu! // Sjáumst úti á götu! // Partý í götunni, látið það berast!

„Það er ótrúlega skemmtilegt og mikill heiður að taka þátt í þessu verkefni með öllu þessu góða og hæfileikaríka fólki. Þarna munu arkitektar, ljósahönnuðir, tónlistarfólk, grafískir hönnuðir, kokkar og hljóðmenn falla í eitt stórt faðmlag með arkitektinum Theresu Himmer og hönnuðinum Brynhildi Pálsdóttur sem sjá um hönnun og útlit kvöldsins. Úr ætti að verða áhugaverðasta partý ársins“

– Ásgeir Guðmundsson, viðburðar-,verkefna-og bæjarstjóri Götupartýs í pop-up borg framtíðarinnar

„Það er gaman að sjá íslenska tónlist fá svona veigamikinn sess á HönnunarMars í ár, og að Kraumur eigi þátt í þeirri þróun. HönnunarMars hefur eflst og stækkað með hverju árinu og með þessu uppátæki, götupartýi og veglegum tónleikum, viljum við búa til skemmtilega stemmningu á lokakvöldi hátíðarinnar – og koma tónlist framfæri í því spennandi umhverfi sem HönnunarMarsinn er. Dag hvern á sér stað mikilvægt samspil íslenskrar tónlistar og hönnunar – t.d. með hönnun á plötuumslögum og öðrum afurðum tónlistarmanna – og því gaman að þessir geirar mætist á viðburði sem þessum. Kraumur hefur unnið með og stutt við mikið af þeim listamönnum og hljómsveitum sem koma munu fram á tónleikunum, en annars erum við fyrst og fremst að horfa til þess að setja saman skemmtilega og spennandi tónlistardagskrá, í umhverfi þar sem verið er að skapa eitthvað nýtt og spennandi. Heilli pop-up borg og götupartý þar sem allir eru velkomnir!“
– Eldar Ástþórsson, meðlimur í stjórn Kraums tónlistarsjóðs

 

„Það er gaman að geta tekið þátt í að leiða saman tónlist og hönnun á HönnunarMars í ár. Það hefur kraumað vel í undirbúningi götupartýs Kraums og Hönnunarsjóðs Auroru og ekki er séð fyrir endann á því hvað þetta samstarf hönnunar og tónlistar getur leitt af sér!“
– Guðrún Margrét Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru

 

Comments are closed.