„TÓNLIST ER MIKILL ÁHRIFAVALDUR Á ÞAÐ SEM VIÐ GERUM“

0

Íslenska fatamerkið Inklaw Clothing hefur heldur betur vakið verðskuldaða athygli en merkið var stofnað fyrir tæpum fjórum árum. Justin Bieber og Steve Aoki o.fl stórstjörnur hafa látið sjá sig í fötum frá Inklaw og segja drengirnir að það hafi klárlega aukið áhugann á merkinu!

Albumm.is náði tali af Inklaw genginu og svöruðu þeir nokkrum skemmtilegum spurningum.


Hvenær var Inklaw stofnað og hvernig kom það til?

Merkið var semsagt stofnað af þeim Guðjóni og Róberti fyrir tæpum fjórum árum. Þetta byrjaði í raun þannig að þeir ákváðu að prenta á hlýraboli og selja þá á Íslandi. Eftir að hafa gert fleiri slíkar árangursríkar tilraunir, s.s. með derhúfur og stuttermaboli, voru þeir hrifnir af þeirri hugmynd að gera fötin alveg frá grunni sjálfir. Í framhaldinu lærði Guðjón að sauma, einkum með hjálp internetsins, á meðan Róbert leitaði leiða til að stækka viðskiptavinahóp merkisins. Þetta leiddi til útgáfu á fyrstu fullbúnu fatalínu merkisins sumarið 2014, en þá jafnframt stofnað fyrirtæki utan um reksturinn. Í dag erum við fjórir á bakvið merkið, en Anton kom inn árið 2015 og Christopher ári seinna eða 2016.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar hönnun og hverjar eru fyrirmyndirnar?

Það getur oft verið erfitt að benda á eitthvað eitt, því innblástur getur komið úr ólíklegustu áttum og mótast mikið af því sem maður sér, heyrir og upplifir. Tónlist er þó mikill áhrifavaldur á það sem við gerum, hvort sem það eru textarnir, myndböndin eða sviðsframkomur. Erum við í því samhengi aðallega að horfa til hip-hop senunar.

Þá eru margir flottir hönnuðir þarna úti í dag, sem við höfum litið upp til á okkar ferli, þar með talið Virgil Abloh frá Off-White, Jerry Lorenzo hjá Fear of God og Philipp Plein.

Hvernig mynduð þið lýsa tískunni í dag og hvar sjáið þið tískuna eftir sirka 2 ár?

Það mætti kannski segja að tískan í dag sé svolítið póstmódernísk. Í gegnum tíðina höfum við farið í gegnum alls konar tískutímabil bæði góð og slæm. Nú horfum við hins vegar til baka og reynum að tína út það besta frá hverju tímabili. Tískan hefur svolítið einkennst af þessu undanfarið og gerir það að verkum að fólk er minna einsleitt. Það er auðveldara fyrir hvern og einn að móta sinn eigin sérstaka stíl.

Það getur verið afar erfitt að spá fyrir um hvernig tískan verður í framtíðinni og er það í rauninni einn snúnasti hlutinn af þessu. Það er alveg nógu erfitt að spá fyrir um næsta ár og hvað þá 2 ár fram í tímann.

Getið þið lýst Inklaw í einni setningu?

Nei, það er eiginlega ekki hægt.

Justin Bieber og fleiri frægir einstaklingar hafa skartað fötunum ykkar, hefur það haft einhver áhrif á merkið?

Já, það hefur alltaf ákveðin áhrif á ímynd merkisins og verður yfirleitt þess valdandi að vörumerkjavitundin eykst. Þetta getur síðan verið voðalega misjafnt eftir því hvern er um að ræða. Í tilviki Justin Biebers þá sáum við alveg greinilega söluaukningu á þeim flíkum sem hann lét sjá sig í. Hann er þá gott dæmi um einstakling sem hefur áhrif á kauphegðun fólks þegar það kemur að tísku. Þetta á oft við mjög vel um tónlistarfólk. Svo eru aðrir sem hafa kannski ekki alveg þessi sömu áhrif, en eru aðdáendur þeirra þá minna að fylgjast með hverju þau klæðast.

Justin Bieber hefur sést í fötum frá Inklaw. Hér er hann í Peysu frá þeim.

Hvað er framundan hjá ykkur og hvert stefnið þið?

Fókusinn akkúrat núna er að enda árið vel. Við erum að koma með talsvert af nýjum hönnunum núna á næstunni sem við erum mjög spenntir fyrir. Þá gæti einnig verið að skemmtilegt samstarf sé á döfinni. Annars er stefnan alltaf sú sama: að verða stærri og betri en við erum í dag.

Tónlistarmaðurinn Steve Aoki sést hér í bol frá Inklaw.

Eitthvað að lokum?

Verðum að hrósa Albumm fyrir góða umfjöllun um íslenska tónlist. Þið eruð að gefa listamönnum gott tækifæri til þess að koma tónlist sinni á framfæri og öðrum tækifæri til þess uppgötva góða tónlist.

www.inklawclothing.com

Skrifaðu ummæli