TÓNLEIKAR Á EINU MEST FRAMANDI SVIÐI HEIMS

0

Föstudaginn síðastliðinn kom norski tónlistarmaðurinn BAYA til landsins til að spila á einu mest framandi sviði heims inni í íshelli Langjökuls, næststærsta jökli landsins. Tónleikarnir sem voru í boði Red Bull voru liður í hliðardagskrá Secret Solstice tónlistarhátíðarinnar.

Gestir fóru um borð í rútu á föstudagsmorgni sem tók þá upp að Klaka, höfuðstöðvum „Into The Glacier,” sem má finna við jaðar Langjökuls. Þegar þangað var komið var fólki vísað um borð í sérútbúna jöklarútu sem klífur óslétt landslagið og kom fólkinu að inngangi íshellisins. Ferðalangarnir settu á sig mannbrodda og ævintýrið inn í mannvirkið hófst.

Gestirnir fengu leiðsögn um íshellinn og fengu frásögn um það hvernig hellirinn var mótaður með mannafli og hvernig hægt er að sjá aldur íssins af rákunum í veggjunum. Þegar búið var að skoða sig um var fólki boðið upp á veitingar og tónleikar hófust.

Það var hin íslenska rafhljómsveit aYia sem steig fyrst á svið en hún er ein nýjasta og „heitasta” hljómsveit íslensku raftónlistarsenunnar. Á stuttum tíma hefur sveitin náð að vekja mikinn áhuga hjá erlendum aðilum jafnt sem innlendum og fengið góðar umsagnir fyrir framkomu sína á Iceland Airwaves og Sónar Reykjavík.

„What I’m saying is that aYia is not just another Icelandic electronic band, they’re THE new Icelandic electronic band.” – The Reykjavik Grapevine

Næstur á svið var hinn norski BAYA (Andrew Murray Baardsen) sem hefur á örfáum mánuðum orðið einn áhrifamesti nýliði norsku raftónlistarsenunar. Fyrsta platan hans kom út í febrúar og ber hún nafnið Oslo-Harlem og er innblásin af fyrstu kynnum Andrews við pabba sinn, Bruno Baya Sompohi, fyrir nokkrum árum. Þessi nýju kynni ásamt þeim listrænu áhugamálum sem feðgarnir deila, leiddu til að „BAYA” varð að veruleika.

Bruno býr til þjóðlegar grímur frá sínu heimalandi – Fílabeinströndinni og hefur Andrew innleitt þær í tónlistarflutning sinn. Þær eru búnar til með LED ljósum sem blikka í takt við lifandi tónlist BAYA og voru þær skemmtileg mótsetning við köldum veggjum íshellisins. BAYA tókst vel að fá gesti til að dansa sem varð til þess að hellirinn byrjaði bókstaflega að bráðna undan hita fólksins.

Red Bull

Secret Solstice

Skrifaðu ummæli