TÓMAS R. EINARSSON ÁSAMT LATÍNSVEIT Í HÖRPU 4. MAÍ

0

tómas

Næstu tónleikar Jazzklúbbsins Múlans, sem jafnframt verða þeir næst síðustu á vordagskránni, fara fram miðvikudaginn 4. maí á Björtuloftum í Hörpu.

Á tónleikunum kemur fram bassaleikarann, tónskáldið og latínbóndann Tómas R. Einarsson sem vart þarf að kynna ásamt hljómsveit sinni. Hljómsveitin mun spila úrval af eldri og yngri latínlögum Tómasar, en latínplötur hans hafa selst í meira en tólf þúsund eintökum og hlotið góða dóma. Sú síðasta, Bassanótt, var kjörin ein af latínplötum ársins 2013 í Kólumbíu og var nýverið nefnd sem dæmi um latíndjass í fremstu röð í bandaríska tímaritinu All About Jazz. Ásamt Tómasi koma fram Snorri Sigurðarson sem leikur á trompet, gítarleikarinn Ómar Guðjónsson, trommuleikarinn Matthías MD Hemstock og Sigtryggur Baldursson sem slær á kóngatrommur.

tómas 2

Vordagskrá Jazzklúbbsins Múlans er að renna sitt skeið og verða síðustu tónleikar dagskrárinnar 11. maí á Björtulöftum, Hörpu. Múlinn er á sínu 19. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is

Comments are closed.