TÍMAFREKJA, EINANGRUN OG TAUGAVEIKLUN

0

Tvíeykið Andy Svarthol hefur sent frá sér lagið „Tímafrekja,“ í kjölfar laganna „Írenu Sírenu“ og „Ofbirtu“ sem vöktu athygli í fyrra.

Andy Svarthol er hugarfóstur bræðranna Egils og Bjarka Hreins Viðarssona og er nýja lagið afrakstur þriggja mánaða náins samstarfs sem einkenndist af einangrun, vankunnáttu, taugaveiklun, kvíðaköstum, súrefnisleysi og tækniörðugleikum. Útkoman er fallegt og melodískt lag, vélrænt og mannlegt í senn.

Áhrifin koma víða að, en bræðurnir eru sérstaklega hrifnir af lummó sixtís poppi, mellotronum, spaghettí-vestrum, Massive Attack og öskrandi fólki, sem þeir reyna að innleiða í flestu sem þeir gera. Mikill metnaður er lagður í útsetninguna, en bræðurnir sáu um hana sjálfir, sem og alla upptöku og hljóðvinnslu.

Laginu fylgir auk þess myndband, en hugmyndavinna, leikstjórn og klipping þess var að langmestu leyti í höndum Auðar Viðarsdóttur, sem er systir meðlima hljómsveitarinnar.

Skrifaðu ummæli