Tilfinningarússíbani sem margir geta tengt við

0

Tónlistarkonan Roza eða Íris Rós eins og hún heitir réttu nafni var að senda frá sér sína fyrstu plötu en hún ber heitið Forever. Platan fæddist í samstarfi við Norskt tónlistarfólk en Íris stundaði tónlistarnám í Noregi. Íris lýsir Forever sem tilfinningarússíbana sem eflaust margir eiga eftir að tengja við.

Albumm.is náði tali af Írisi og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um plötuna og hvað er í vændum.


Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom það til?

Ég hef verið að semja lög og texta síðan ég man eftir mér. Tónlistarsköpun hefur alltaf heillað mig og síðustu ár hef ég reglulega tekið upp ný lög og þróað mína eigin rödd.

Þú varst að senda frá þér þína fyrstu plötu, er hún búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan færð þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Forever platan fæddist í samstarfi við norskt tónlistarfólk sem tók upp með mér fyrir nokkru síðan. Ég sem lögin mín mikið út frá tilfinningum og mér finnst tónlistin veita mér frelsi til þess að koma þeim út.

Hvernig var að vera í tónlistarskóla í Noregi og hverskonar nám var það?

Það var frábær reynsla að skipta um umhverfi og það veitti mér innblástur og hvatningu að vera í kringum mikið af fólki á svipuðum aldri sem allt hafði mikla ástríðu fyrir tónlist. Í náminu var mikil áhersla lögð á að gefa sköpunargáfunni lausan tauminn. Ég kynntist rosalega mikið af hæfileikaríku fólki og er þakklát fyrir tímann sem ég átti í Noregi. Margir af þeim sem ég var með í skólanum hafa verið að gera frábæra hluti og vakið athygli í Noregi síðan.

Hvernig mundir þú lýsa plötunni í einni setningu og hvaða plötu getur þú hlustað á endalaust?

Forever er tilfinningarússíbani sem grípur vonandi hlustendur og eflaust geta margir tengt við eitthvað af því sem lögin fjalla um. Ég get hlustað endalaust á tónlistarkonuna Astrid S. Hún er frábær listakona sem ég lít mikið upp til.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Það væri virkilega gaman að halda tónleika og flytja efnið af plötunni við tækifæri. Ég er mjög upptekin eins og er og með mikið af nýjum lögum í vinnslu svo tíminn verður að leiða í ljós hvort ég geti látið verða af því að halda tónleika.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég er á öðru ári í klassísku tónsmíðanámi við Listaháskóla Íslands og samhliða því að sinna skólanum reyni ég að vera dugleg að vinna í nýjum lögum. Á næstunni mun ég gefa út nokkur lög sem verða í öðrum stíl en það sem fólk hefur heyrt frá mér hingað til.   

Hér fyrir neðan má sjá myndband við lagið „I’m Not Coming Home”

Hér fyrir neðan má sjá myndband við lagið „It’s Over”

Skrifaðu ummæli