„Þurfum ekki að breyta okkur til þess að lifa af í kerfi sem þjónar okkur ekki“

0

Tónlistarkonan Lára Rúnars var rétt í þessu að senda frá sér fyrsta lagið af væntanlegri plötu sem er sjötta sólóplata Láru. Lagið heitir „Segja frá“ og er um samstöðu og samtakamátt kvenna. Mikilvægi þess að geta sagt frá og deilt upplifunum sínum og reynslu.

„Lagið fjallar um skilninginn og stuðninginn sem við veitum hvor annarri. Með systrum okkar getum við lagt niður grímurnar, verið hráar og berskjaldaðar. Við þurfum ekki að herða okkur eða breyta til þess að lifa af í kerfi sem þjónar okkur ekki. Öll orð eru óþörf því við skiljum í frumunum Okkar. Að segja frá getur verið ótrúlega sársaukafullt en þegar við gerum það hefur það skapað órjúfanleg tengsl og djúpt traust kvenna á milli.” – Lára

Eins og áður sagði er lagið það fyrsta af væntanlegri plötu Láru. Platan er unnin í samstarfi við Sóleyju Stefáns og Alberti Finnbogasyni en í laginu spila líka Arnar Gíslason á trommur og Rósa Guðrún Sveinsdóttir á saxafón.

Lagið er tekið upp að hluta til í bílskúrnum hjá Sóley þar sem mikið af efni plötunnar varð til en síðan klárað í hljóðveri Alberts í Iðnó. Um plötuna segir Lára að ferlið hafi tekið tvö ár og að hún sé afar stolt af útkomunni.

„Ég er ótrúlega þakklát að hafa fengið Sóleyju með mér og ástæðan fyrir því að ég talaði við hana í upphafi var vegna þess hve ótrúlega vel hún töfrar fram allskonar þræði, lætur þá fléttast saman og enda síðan í einhverju fallegu. Hún og Albert eru bæði ótrúlega næm á það hvað þjónar lagasmíðinni og hvað ekki. Það er ekki verið að ofhlaða neinu en hugmyndin mín var að fara aftur í upprunann þar sem grunnlagasmíðin fær að njóta sín.” – Lára

Platan er væntanleg síðar í vetur og næstu tónleikar Láru Rúnars verða á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves, þar mun hún flytja efni af væntanlegri plötu í bland við gamalt efni.

Skrifaðu ummæli