ÞORGERÐUR ÓLAFSDÓTTIR OPNAÐI SÝNINGUNA ÞÁ,ÞEGAR Í HARBINGER Í DAG

0

þ´rgerður ólafsdóttir
Í dag opnaði Þorgerður Ólafsdóttir sýninguna Þá,Þegar í Harbinger. Á sýningunni gefur að líta innsetningu sem samanstendur af arkífu Þorgerðar af fjöldamörgum plasthlutum sem fundist hafa í jörðu víðsvegar um landið. Plastið er í vörslu Þjóðminjasafnsins en á undanförnum árum hafa plasthlutir öðlast aukin sess í hlutasöfnun safnsins þó um núminjar sé að ræða. Frá síðasta vetri hefur Þorgerður skoðað og ljósmyndað megnið af plastmunum í vörslu safnsins.

harbinger

Verkin á sýningunni eiga upphaf sitt í vinnuferð á vegum Fornleifastofnunar Íslands, þar sem listamanninum var boðið að fylgjast með og aðstoða við skráningu muna sem fundust í Mývatnssveit sumarið 2014. Rauður plastbútur sem fannst í efsta lagi öskuhaugs við Helluvað vakti mikinn áhuga Þorgerðar og er einn af upphafspunktum verksins sem nú er til sýnis í Harbinger. Plastbúturinn var skráður og mun að lokinni rannsókn við Helluvað, verða varðveittur í Þjóðminjasafninu.

Samkvæmt þumalputtareglu fornleifafræði teljast hlutir ekki til fornminja nema að þeir séu 100 ára eða eldri. Í uppgrefti þurfa fornleifafræðingar samt sem áður að taka tillit til alls þess sem finnst á hverju rannsökuðu svæði. Undanfarin ár hefur verið sífellt erfiðara að útiloka plasthluti sem finnast í efsta lagi uppgraftar og vísa þeim hlutum strax frá sem sorpi, þó svo mörgu sé vissulega hent. Fornleifafræðingurinn hefur því mikið vald og ákvarðanir hans móta óhjákvæmilega söguna.

orgerður ólafsdóttir

Í rannsóknarvinnu sinni við gerð sýningarinnar vann Þorgerður í samstarfi við Þjóðminjasafnið við að ljósmynda plasthluti og gera þá sýnilega á gagnagrunni safnsins. Minjar sem eru nálægt samtímanum og eru oft taldar rusl, eru því orðnar aðgengilegar sem partur af hlutasögu okkar. Plast, hrein iðnaðarafurð, brotnar afar hægt niður í náttúrunni og agnir þess dreifast um heiminn með vatni, lífverum og öðrum ferlum. Magn plasts í umhverfinu, og að það sé nú orðið gjaldgengt sem fornminjar, krefur meðal annars fram spurningar um hvar söfnun hefst og hvar hún endar.

Sýningarstjóri er Bjarki Bragason, ljósmyndun við gerð verka var unnin af Vigfúsi Birgissyni. Sýningin hlaut styrk frá Myndstef.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um núminjarnar /plastmunina hér.

Harbinger er opið fimmtudaga – laugardaga frá 14 – 17 og eftir samkomulagi. Sýningin stendur til 14. febrúar.

Comments are closed.