„ÞETTA ER SJÁLFSTÆTT FRAMHALD ÞAR SEM HIÐ GAMLA MÆTIR ÞVÍ NÝJA”

0

Hljómsveitin Tappi Tíkarrass sendir á morgun fimmtuaginn 7. Desember (á degi íslenskrar tónlistar) frá sér glænýja og brakandi ferska breiðskífu!

Hljómsveitin Tappi Tíkarrass var stofnuð vorið 1981. Eyþór Arnalds, Eyjólfur Jóhannsson og Oddur Sigurbjörnsson voru ásamt Björk Guðmundsdóttur í hljómsveit sem hét þá því skemmtilega nafni Háspenna/Lífshætta. Björk fór til  Frakklands og dvaldi þar yfir sumarið og var þá ákveðið að stofna hljómsveit til að hafa eitthvað að gera á meðan. Hóað var í bassaleikara úr Breiðholtinu, Jakob Smára Magnússon og Tappinn var stofnaður. Faðir Jakobs kom með nafnið í einhverjum fíflagangi og menn gripu það á lofti. Hljómsveitin fór hratt af stað og mikið af lögum urðu til á stuttum tíma og mikið spilað! Þegar Björk kom aftur til landsins með haustskipunum var Háspenna/Lífshætta ekki lengur til, en Tappinn var kominn til að vera og Björk boðið að vera með.

Hljómsveitin vakti athygli í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík og fékk plötusamning í kjölfarið. Oddur og Eyþór yfirgáfu bandið, Guðmundur Þór Gunnarsson tók við kjuðunum og Björk sá alfarið um sönginn. Hljómsveitin spilaði mikið og tók upp tvær plötur, Bitið fast í vitið sem kom út 1982 og Miranda sem kom svo út árið 1983. Hljómsveitin hætti störfum daginn sem Miranda kom út! Hljómsveitarmeðlimir fóru hver í sína áttina en áttu eftir að starfa eitthvað saman á öðrum vettvangi. Jakob og Guðmundur gengu til liðs við Bubba Morthens í Das Kapital, Eyjólfur og Jakob voru saman í Síðan Skein Sól og Jakob og Eyþór spiluðu saman í Todmobile á fyrstu árum þeirrar sveitar. Björk gekk til liðs við Kukl og síðan Sykurmolana og hóf svo farsælan sólóferil sem allir þekkja.

Árið 2015 hittust Jakob, Eyjólfur og Eyþór á ónefndum veitingastað í miðborg Reykjavíkur og borðuðu naut. Þá kom upp sú hugmynd að hóa í Gumma trommara og rifja upp það sem þeir höfðu verið að bralla á fyrstu mánuðum Tappans. Þetta var hugsað sem einhvers konar saumaklúbbur þar sem farið skyldi í saumana á gömlum lögum. Lögin sem höfðu orðið til í upphafi höfðu dottið af prógramminu við brotthvarf Eyþórs og það þótti spennandi hugmynd að kanna hvort lögin væru endanlega gleymd og grafin. Þau höfðu ekki verið hljóðrituð svo það reyndi á minni manna.

„Það var alls ekki ætlunin að endurskapa Tappa Tíkarrass eins og hann birtist í Rokk í Reykjavík eða á plötunum tveimur sem komu út á síðustu öld. Þetta er sjálfstætt framhald þar sem hið gamla mætir því nýja.“ – Jakob Smári Magnússon bassaleikari sveitarinnar.

Í ljós kom að minnið var betra en menn þorðu að vona þegar fyrsta æfing fór fram í kjallara við Hverfisgötu. Stundum mundu þeir bara textabrot eða titil, en önnur lög runnu fram áreynslulaust. Þegar búið var að rifja upp og spila þessi gömlu lög nokkrum sinnum urðu til ný lög. Það var engin leið að stoppa. Tappinn hafði verið dreginn úr og innihaldið virtist endalaust. Næsta skref var að bóka tíma í stúdíói og taka upp og hljómsveitin kom í fysta skipti fram opinberlega eftir öll þessi ár á Hard Rock 1. Desember 2016, 33 árum eftir að hún lagðist í dvala.

Eins og áður segir hét fyrsta platan Bitið fast í vitið eftir samnefndu lagi sem aldrei var gefið út. Nú er það ágæta lag loks komið út ásamt fleiri lögum frá þessari öld og þeirri síðustu. Það má segja að tónlistin á þessari nýju plötu endurspegli hvernig Tappinn hljómaði í upphafi, dálítið hrárri og harðari en sú tónlist sem Tappinn var hvað þekktastur fyrir.

Stefnt er að því að fagna útkomu plötunnar með tónleikum í Janúar á næsta ári.

Skrifaðu ummæli