„Þetta er frekar góð tilfinning og einhverskonar léttir”

0

Tónlistarkonan Sura eða Þura Stína Kristleifsdóttir eins og hún heitir réttu nafni hefur svo sannarlega komið víða við á viðburðaríkum ferli en hún var að senda frá sér sitt fyrsta sóló lag! Lagið ber heitið „Komast Upp” og mun það án efa hljóma í eyrum landsmanna um ókomna tíð! Sura segir það vera afar góða tilfinningu og einhverskonar léttir að senda frá sér sitt fyrsta lag. Það er nóg framundan hjá Suru og hlakkar okkur mikið til að fylgjast með herlegheitunum!


Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom það til?

Ég er búin að vera að syngja bara frá því ég man eftir mér, fór í þetta týpíska blokkflautufornám þegar ég var sex ára og hélt svo áfram í píanónámi. Ég á mjög erfitt með að lesa nótur og fannst leiðinlegt í tónfræði en ég gat pikkað upp öll lög og get enn. Ég hætti í píanóinu eftir ca.fjögur ár þegar ég komst ekki lengur upp með að gera þetta svona og kunni ekki neitt þegar ég átti að fara að læra undir stigsprófið. En ég var líka í söngskóla frá 8 ára aldri og tónlist hefur alltaf átt mig alla.

Hvaða er það við tónlist sem heillar þig og hvernig tónlist hreyfir við þér?

Sko ég eiginlega gæti bara ekki hugsað mér að gera neitt án tónlistar, ég upplifi tónlist í öllu. Það er frekar mikið sem hreyfir við mér, ég er alls ekki alæta á tónlist en það er frekar vítt samhengið þegar kemur að henni. Ég hef hlustað á allskonar stefnur og stíla en kannski lengst af hip hop og rapp. Ég komst samt eiginlega bara að því nýlega, ég hélt innilega lengi að allir hlustuðu á hip hop. Ég er úr Árbænum og setti einhverskonar samasem merki við að það væri frekar basic bara að hlusta á hip hop en það var alls ekki raunin.

Þú hefur komið víða við en hvernig tilfinning er það að gefa út sitt fyrsta sóló lag?

Það er frekar góð tilfinning og einhverskonar léttir, ég bjóst kannski ekki alveg við því að ég væri að létta af mér einhverju þyngra fargi en það er kannski út af því að ég er smá búin að loka á þennan sköpunarkraft í einhvern tíma og hef bara verið að semja fyrir sjálfan mig og nota hann í annarri listsköpun. En mér líður mjög vel og er ótrúlega spennt fyrir framhaldinu.

Er „Komast Upp” búið að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Komast upp fæddist almennilega núna í febrúar en er búið að vera í kollinum á mér mun lengur. Þar fór ég algjörlega inn á við og ég reyndi að koma niður í texta hvernig mér leið. Ég fæ mikinn innblástur frá fólki og er oftast að semja bara um daglega hluti og hvernig mér líður, en svo fæ ég mikinn innblástur bæði frá hljómsveitinni minni Cyber og öllu hæfileikaríka fólkinu sem er nálægt mér að gera tónlist.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það er nóg framundan hjá SURU, ég er að taka upp tónlistarmyndband um helgina við næsta síngúl sem kemur út núna í maí og svo er ég bara á fullu að semja og taka upp efni fyrir plötuna. Ég verð með tónleika á Secret Solstice núna í júní þar sem ég lofa trylltu show-i og verð með  mjög góða gesti með mér. Svo bara endilega tjékkið á Komast upp á Spotify!

Skrifaðu ummæli