„Þetta er eitthvað sem var búið að krauma lengi innra með mér“

0

Tónlistarmaðurinn Helgi Kristjánsson var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu en hún ber heitið Skýjabönd. Þótt Skýjabönd sé hans fyrsta plata þá hefur hann svo sannarlega komið víða við og lamið húðir með hljómsveitum eins og One Week Wonder, Hugar, Ásgeiri og fleiri! Helgi segir plötuna vera uppgjör til fyrra lífs og ef hann ætti að lýsa plötunni í einni setningu væri það Ljóðrænt, tilfinningalegt ferðalag.

Albumm.is náði tali af Helga og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum.


Þú hefur komið víða við í tónlistinni, hvað er það við tónlistina sem heillar þig og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Ég hef sótt minn innblástur auðvitað frá öðrum tónlistarmönnum sem ég heillast af og lít upp til. Líka allri þeirri tilfinningalegu veðráttu sem maður ferðast í gegnum í lífinu. Mér finnst ég oft þurfa gera tilfinningum skil í gegnum tónlistina, það hjálpar mér líka að vinna úr alls kyns flækjum. Tónlistin hefur alltaf virkað á mig sem geggjuð sálarmeðferð. Bæði þegar ég skapa hana og þegar ég hlusta.

Þú hefur lamið húðir með all mörgu tónlistarfólki, hvað fékk þig til að ráðast í þitt eigið verkefni?

Þetta er eitthvað sem var búið að krauma lengi innra með mér og leið mér alltaf eins og það væri bara tímaspursmál hvenær ég myndi ráðast af stað í eigið verkefni. Svo ákvað ég það fyrir ári síðan að ég skyldi leggja allar mínar vakandi og sofandi stundir í þessa plötu. Í dag myndi ég ekki skilgreina mig sem einhvern einn ákveðinn hljóðfæraleikara, en þetta eru allt verkfæri sem ég nota til þess að smíða heildarverkið.

Platan Skýjabönd kemur út í dag 31. Ágúst,  er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Platan er búin að vera í vinnslu frá því í ágúst í fyrra, þannig að þetta ferli tók akkúrat ár frá byrjun til enda. Eitt lagið var að vísu tekið upp 2016, en ég heimsótti það aftur í ferlinu í ár.

Hvernig mundir þú lýsa plötunni í einni setningu?

Ljóðrænt, tilfinningalegt ferðalag.

Þú vinnur náið með tónlistarmanninum Ásgeiri Trausta, hvernig kom það samstarf til?

Það var eiginleg tilviljun að við Ásgeir kynntumst, en við vorum báðir ráðnir í sömu hljómsveit árið 2012 sem var stofnuð til þess að taka þátt í músíktilraunum. Hún hét The Lovely Lion. Á fyrstu æfingunni small eitthvað okkar á milli og höfum við síðan þá lesið hvorn annan eins og opna bók í tónlistinni og orðið mjög góðir vinir í kjölfarið.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það verða útgáfutónleikar í Bæjarbíói 3. október og svo komum við fram líka fram á Airwaves. Það hefur myndast ótrúlega hæfileikaríkur hópur sem ætlar að gera tónlistinni góð skil á sviðinu. Ég vil líka þakka öllum þeim sem hafa komið að þessu verkefni á einn eða annan hátt!

Skrifaðu ummæli