„ÞESSAR SÖGUR VERÐA AÐ EINHVERS KONAR GLUGGA INN Í ÞENNAN GAMLA HEIM”

0

Fyrir skömmu sendi tónlistarmaðurinn Snorri Helgason frá sér breiðskífuna Margt býr í þokunni og óhætt er að segja að gripurinn er afar forvitnilegur! Öll lögin á plötunni byggja á Íslenskum þjóðsögum en hugmyndin að henni kviknaði fyrir nærri fjórum árum síðan. Margt býr í þokunni er að mestu samin í Galtarvita en Snorri segir þann stað rammgöldróttann! Snorri og félagar blása til heljarinnar útgáfutónleika í kvöld á skemmtistaðnum Húrra og öllu verður til tjaldað!


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvernig kviknaði sú hugmynd að byggja lögin á íslenskum þjóðsögum?

Já hugmyndin að plötunni kviknaði hjá mér fyrir nærri því 4 árum síðan eða snemma árs 2014. Ég var framkvæmdastjóri Reykjavík Folk Festival á þessum tíma og uppgötvaði að ég þekkti ekki íslenska þjóðlagatónlist sérstaklega vel. Bara þessi helstu lög eins og „Á sprengisandi“ og „Móðir mín í kví kví“ og svoleiðis. Þá fór ég á bókasafn og náði í allt sem ég gat fundið um íslenska þjóðlagatónlist, bækur með nótum og söngtextum og einhverja geisladiska með sópransöngkonum að syngja þessa tónlist við undirleik flygils. Ég les ekki nótur og náði ekki mikið að tengja við þau hljóðrit sem ég fann þarna á bókasafninu en söngtextarnir, sögurnar og heimurinn á bakvið þá heilluðu mig. Út frá því fór ég að safna að mér þjóðsögubókum. Mamma og pabbi áttu einhver bindi af safni Jón Árnasonar, sem er algjört grundvallarrit íslenska þjóðsagnaarfsins og ég fékk þau lánuð og drakk þetta í mig.

Svo var það akkúrat um þetta leiti sem ég var á leiðinni í heimsókn til Lovísu (Lay Low) og Agnesar í tvo daga að semja músík og kvöldinu áður en ég lagði af stað las ég þjóðsöguna um selshaminn og fannst hún eitthvað svo sturluð og skrítin að ég stakk upp á því við Lovísu að við myndum prófa að semja eitthvað við hana. Við notuðum lag með tónlistarmanni sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur báðum, Lefty Frizzel sem heitir The Long Black Veil og sömdum nýjan texta við það sem endaði svo á plötunni og Lovísa syngur. Það var svona byrjunin á þessu öllu og þarna sá ég að þetta væri hægt og pælingin fór að myndast hjá mér.

Ég var alltaf með þetta á kantinum á meðan ég var að vinna í plötunni sem kom út í fyrra með hljómsveitinni minni sem heitir Vittu Til og sótti í þetta með hléum þegar ég hafði tíma og næði til að sinna þessu. Svo hélt ég bara áfram að lesa og grúska og pæla og semja og smám saman urðu þessi 10 lög til og þá kallaði ég í Guðmund Óskar og við byrjuðum að taka þau upp í stúdíóinu hans úti á Granda. Við byrjuðum í ágúst á síðasta ári, sirka mánuði eftir að Vittu Til kom út og svo tóku við þetta í mörgum litlum skorpum fram á sumar 2017.

Hvað er það við íslensku þjóðsögurnar sem heilla þig?

Þær sögur sem að ég tengdi mest við og ég samdi lög við eiga það flestar sameiginlegt að þær lýsa raunveruleika fólks á þessum tíma. Ég er frekar mikill sagnfræðiperri og hef sérstakan áhuga á Íslandi á 18. og 19. öld sem er akkúrat tíminn sem flestar þessar sögur gerast á og þær verða að einhvers konar glugga inn í þennan gamla heim. Mér finnst gaman að reyna að setja mig í spor fólksins sem eru miðpunkturinn í öllum þessum sögum og reyna að átta mig á því hvernig þessar sögur og þessi trúabrögð öll urðu til. Mikið af þessum sögum eru mjög rómantískar og ævintýralegar en svo er þarna líka að finna lýsingar á lífsbaráttu íslensks almennings áður fyrr sem mér finnst mjög áhugaverðar. Ég nefni bara sem dæmi útlegð Fjalla-Eyvindar og Höllu. Þeim hjónum tókst að lifa af í 20 ár uppi á heiðum. Það er svo sturluð staðreynd fyrir nútímanneskju að ímynda sér þetta. Sjénsinn að jafnvel mestu útivista/læknatómasa týpur dagsins í dag gætu lifað af mikið meira en nokkrar vikur á hálendinu. En þetta tókst þeim að gera í 20 ár og voru réttdræp og hundelt af byggðarfólki allan tímann. Sturlað!

Þú eyddir tveimur sumrum í Galtarvita til að lesa Íslenskar þjóðsögur, hvernig var sá tími og var þetta ekkert einmanalegt?

Galtarviti er náttúrulega besti staður sem ég hef komið á þannig að sá tími sem ég fæ að eyða þar er alltaf yndislegur. Ég hef sárasjaldan verið alveg einn þar, Saga var með mér mest allan tímann og fleiri vinir okkar kíktu við í nokkra daga og vikur í senn. Þessi staður og orkan sem þar er að finna er ótrúleg og áþreifanleg. Ég hef komið þangað á hverju sumri síðustu 5 ár og á þeim tíma sem ég hef eytt þar hef ég samið a.m.k. 70% af allri tónlist sem ég hef samið síðustu ár. Í hvert skipti sem ég kem þangað verður einhver kreatíf sprenging innan í mér. Þetta er rammgöldrótt svæði.

Áttu þér uppáhalds þjóðsögu, ef svo er hver er hún og af hverju?

Ég held að ég verði að nefna söguna um Selshamin af því að hún kom þessum bolta af stað sem að ég sé ekki fyrir endann á hvar muni stöðvast. Ég stend í þakkaskuld við hana út af því. Svo er sú saga líka mjög skrítin og skemmtileg. Þar segir meðal annars að þegar að Móses klauf Rauðahafið til að forða gyðingum úr ánauð í Egyptalandi og skellti því svo aftur þegar Egyptarnir sem eltu þá voru í því miðju þá urðu þeir Egyptar að selakynni. Þess vegna eru selir með svona mannleg augu. Basic.

Við hverju má fólk búast á útgáfutónleikunum og ætlarðu að spila plötuna í heild sinni?

Fólk má búast við alvöru fólkklúbba stemmningu. Tónleikarnir hefjast á því að Teitur Magnússon og Pétur Ben koma og taka nokkur ný lög á mann og kynna plötur sem þeir eru að vinna í báðir. Svo stíg ég ásamt Erni Eldjárn á pedal steel og banjó, Guðmundi Óskari á bassa og Hirti Ingva Jóhannssyni á hljómborð og harmonikku á svið og við flytjum plötuna eins og hún leggur sig. Lovísa (Lay Low) kemur og syngur Selinn með okkur og 8 manna kór syngur líka í nokkrum lögum. Þetta verður geggjað.

Útgáfutónleikarnir fara fram á Húrra í kvöld 17. Janúar og hægt er að nálgast miða á Tix.is

Hægt er að hlýða á Margt Býr Í Þokunni í heild sinni hér:

Snorrihelgason.com

Skrifaðu ummæli