Þessa helgi er bærinn fullur af fólki frá fimmtudegi til sunnudags

0

Hammondhátíð Djúpavogs verður haldin í þrettánda sinn 19.-22. apríl 2018. Dagskráin í ár er einkar glæsileg. Á upphafskvöldinu koma fram Guðmundur R. og Moses Hightower, föstudagskvöldið er í höndum Mammút og Úlfur Úlfur, á laugardagskvöldinu stíga á stokk hljómsveitirnar Árstíðir og Sólstafir og á lokatónleikunum, sem fram fara í Djúpavogskirkju á sunnudeginum, mætir Salka Sól ásamt hljómsveit og ætlar að flytja lög sem hafa haft áhrif á hana og mótað hana sem einstakling og listamann.

Markmið Hammondhátíðar er að heiðra þetta magnaða hljóðfæri, Hammondorgelið, en eftir því sem hátíðarhaldarar komast næst er þetta eina hátíðin í heiminum sem tileinkuð er þessu hljóðfæri.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2006 og hefur jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg síðan og er nú orðin ein af elstu og stærstu tónlistarhátíðum sem fram fara á landsbyggðinni.

Listinn yfir þá tónlistarmenn og hljómsveitir sem komið hafa fram á hátíðinni í gegnum tíðina er orðinn langur og glæsilegur og hafa hljómsveitir og listamenn á borð við Hjálma, Baggalút, Dúndurfréttir, Megas, Stórsveit Samma, Nýdönsk, Mugison, Stuðmenn, Agent Fresco, Valdimar, Todmobile, Langa Sela og skuggana, Mono Town, Skonrokk, Ragga Bjarna, Diktu, Kiriyama Family, Emmsjé Gauta, Amabadama, Jónas Sig. og Ritvélar Framtíðarinnar, Bubba og Dimmu heiðrað hátíðina með nærveru sinni. Allt í allt hafa um 260 tónlistarmenn stigið á stokk á Hammondhátíð. Þá hafa ófáir austfirskir tónlistarmenn komið fram auk þess sem þáttur heimamanna hefur verið rómaður en um 60 tónlistarmenn og konur frá Djúpavogi hafa tekið þátt frá upphafi.

Hammondhátíð er orðinn langstærsti menningarviðburður Djúpavogs og þessa helgi er bærinn fullur af fólki frá fimmtudegi til sunnudags, fjöldinn allur af utandagskrárviðburðum er í boði alla dagana.

Miðasala á Hammondhátíð 2018 er í fullum gangi á www.tix.is

Skrifaðu ummæli