Þegar eitthvað smellur og lífið er eins og það á að vera

0

Listamaðurinn Yambi var að senda frá sér glænýtt lag og myndband sem ber heitið „Töfrar.” Hann fetar þar með nýjar slóðir, þar sem ólíkt fyrri lögum hans, er textinn á íslensku. Þá samdi hann textann í þetta sinn með Pétri Ólafssyni, föður sínum, en oftast hefur hann unnið sitt efni einn. Listamaðurinn heitir réttu nafni Bjarni Freyr Pétursson og hefur komið víða við á sínum ferli. Lagið töfrar varð til þegar hann og faðir hans ræddu augnablikin í lífinu þar sem eitthvað smellur og okkur finnst lífið einmitt eins og það á að vera. Þannig fjallar það um að trúa á töfra og að þeir geti leynst víða. Jafnvel á erfiðum tímum þegar fréttir af stríði, ótta og stækkandi öfgaöflum berast ört. Í heimi sem oft er fullur af erfiðleikum er oft hægt að finna gleði þegar við upplifum góðmennsku og ást og finnum ekki bara til með hvort öðru heldur gerum eitthvað til að hjálpa. Þó ekki sé nema að taka utan um hvort annað og standa saman. Þessir töfrar, sem eru óáþreifanlegir, geta leynst víða og breytt lífi okkar þó ekki sé nema í skamma stund.

Yambi er bæði lagahöfundur og útsetjari og hefur á skömmum tíma getið sér gott orð fyrir grípandi og frumleg lög. Þessa dagana vinnur að hann nýrri smáskífu sem er væntanleg á næstunni. Tónlist hans er hægt að lýsa sem blöndum af hressu elektrónísku poppi og danstónlist. Yambivonar að tónlist sín færi fólki gleði og orku sem fær það til að standa upp og dansa og gleyma sér.

Myndbandið er unnið af Pétri Eggerz. Í því er áhersla lögð á að fanga töfra í loftinu og skapa sérstakan ljósadans. Þá er það söngkonan Guðrún Ólafsdóttir sem syngur lagið.

Töfrar er einnig komið á Spotify

Yambi á Instagram

Skrifaðu ummæli