„ÞAÐ VAR ALDREI MARKMIÐIÐ AÐ GERA PLÖTU“

0

Tónlistarmaðurinn Guðlaugur Bragason eða Sveimur eins og hann kallar sig var að senda frá sér sína fyrstu plötu en hún ber heitið Reset. Fyrir skömmu sendi kappinn frá sér lagið „Journey” og féll það afar vel í kramið hjá landanum.

Reset er einstaklega forvitnileg og skemmtileg plata sem tekur hlustandann í eitt allsherjar ferðalag. Söngkonan Ylfa Marín kemur talsvert við sögu á plötunni en hún er með undurfagra rödd sem auðvelt er að sogast inn í.

Albumm.is náði tali af Guðlaugi og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum.


Er platan búin að vera lengi í vinnslu?

Hugsa að ég hafi byrjað að semja þessi lög fyrir um fjórum árum en þá var aldrei markmiðið að gera plötu. Eftir að ég var farinn að vilja koma þessum lögum frá mér í plötuformi myndi ég segja að vinnslan hafi tekið um hálft ár. Þá voru samt flest lögin nú þegar samin og því ekki alveg augljóst hver heildartíminn var.

Er platan frábrugðin fyrri verkum og hvernig er vinnuferlið búið að ganga fyrir sig?

Þetta er mín fyrsta plata þrátt fyrir að ég hafi verið að gera tónlist lengi. Hugsa að verkin mín gegnum árin hafi smátt og smátt þróast þá leið sem ég fer á plötunni, þ.e. í svona cinematískar melodíur þar sem í hverju lagi er sögð smá saga.

Vinnan gekk mjög vel fyrir sig þó það hafi vissulega komið einhverjir hnökrar á leiðinni. Maður fer í svona verkefni fullur sjálfstraust, og að maður sé með allt á hreinu en svo lærir maður ótrúlega margt í ferlinu, bæði á sjálfan sig og annað samstarfsfólk.

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Ég hlustaði mikið á raftónlist á mínum yngri árum. Artistar eins og Orbital, U-ziq, Squarepusher og Aphex Twin koma fyrstir upp í hugann en ég hugsa að hljóðheimurinn minn sé klárlega innblásinn þaðan. Hvað varðar lögin sjálf, þ.e. texta og melodíur hefur mér ítrekað verið sagt að þetta sé tónlist í kvikmyndastíl. Það er allavega ekki viljandi gert en ég get ekki neitað því að tónlist kvikmyndanna sé að hafa sterk áhrif.

Á hvaða þrjár plötur getur þú hlustað á endalaust og afhverju?

Orbital; Insides. Hugsa þetta sé besta plata sem ég hef hlustað á. Hvert einasta lag á plötunni hefur á einhverjum tímapunkti verið uppáhaldslagið mitt og ég er fullviss um að tónarnir á Insides hafi bókstaflega mótað heilann minn á lífsleiðinni. Við hverja hlustun uppgötva ég eitthvað nýtt, meistaraverk.

Global Communication; 76:14. Eftir að ég heyrði lagið 14:31 fyrst fór ég beint út í búð að versla þessa plötu. Klárlega besta ambient plata sem ég hef heyrt og eru öll lögin á henni svo frumleg og í sérstökum stíl. Í dag tekur hver hlustun mig aftur til fortíðar og fær mig til að endurupplifa gamla tíma.

Vangelis; Spiral. Þessa keypti ég á erfiðum aldri. Nýkominn á kynþroskaaldur og reiður út í heiminn. Ég held að hljóðheimur Vangelis hafi hjálpað mér í gegnum erfiðan tíma, og eftir því sem ég þroskast sem listamaður finnst mér hljóðheimur Vangelis alltaf gefa mér meiri og meiri andagift. Einstök plata.

Á að fylgja nýju plötunni eftir með tónleikahaldi?

Já, núna er ég byrjaður að spila á fullu og er að taka efni af plötunni ásamt nýju efni. Mun spila á tónleikum á morgun fimmtudag (6. apríl) á Hlemmur Square þar sem ég tek 3 lög af plötunni ásamt helling af nýju efni. Útgáfutónleikarnir verða svo vonandi fyrri part sumars.

Eitthvað að lokum?

Platan er fáanleg á bandcamp en mun á næstu dögum detta inn á spotify og fleiri miðla. Mun auglýsa það á facebook síðunni hjá Sveimur. Mig langar líka að þakka þeim sem keyptu plötuna í forsölu Karolina fund. Án ykkar hefði þetta ekki orðið möguleiki. Vonast til að sjá sem flesta annað kvöld!

 

Skrifaðu ummæli