ÞAÐ SEM DRÍFUR ÞETTA ÁFRAM ER SKÖPUNARGLEÐI OG FORVITNI

0

Baldvin Snær Hlynsson gaf nýverið út djassplötuna Renewal. Platan inniheldur átta lög og hefur fengið frábærar viðtökur. Þetta er norrænn og þjóðlagaskotinn djass með ýmsum áhrifum. Ásamt Baldvini sem er píanóleikari spila Bjarni Már Ingólfsson á gítar, Ari Bragi Kárason á flugelhorn, Einar Scheving á trommur og slagverk og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á kontrabassa.

Útgáfu plötunnar verður fagnað með útgáfutónleikum í kvöld  miðvikudag klukkan 20:00 í Norræna húsinu.

Albumm.is náði tali af Baldvini sem svaraði nokkrum spurningum um plötuna.


Hvernig datt þér í hug að taka upp djassplötu?

Ég veit það ekki alveg. Það sem drífur þetta áfram er í rauninni bara sköpunargleði og forvitni. Mér finnst mjög forvitnilegt að setja saman hljóma og laglínur og svo er enn forvitnilegra að fá með sér frábæra spilara sem koma með sína liti inn í músíkina.

Nú er töluverður aldursmunur á spilurunum, hvernig var að vinna með þeim?

Það var gríðarlegur lærdómur í því að vinna með þeim. Ari, Einar og Valdi eru allir frábærir tónlistarmenn og spilarar og ótrúlega inspírerandi karakterar. Þeir eru allir í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo lærði ég örugglega mest á því að vinna með Kjartani Kjartanssyni hljóðmanni. Við hittumst reglulega eftir upptökurnar til að ræða hljóðblöndunina og fráganginn á þessu. Kjartan er mikill mentor og hugsuður og það voru mjög mikil forréttindi að kynnast honum.

Má búast við einhverju fleiru frá þér á næstunni?

Já, það er ýmislegt í gangi. Meðal annars er ég og hljómsveitin mín Salsakommúnan að vinna að breiðskífu sem kemur út von bráðar. Þetta er 11 manna hljómsveit sem spilar frumsamin lög og texta undir suðrænum áhrifum. Svo er ýmislegt á teikniborðinu.

Renewal fæst í Lucky Records, 12 Tónum og Smekkleysu og einnig er hægt að kaupa plötuna rafrænt á Bandcamp.

Skrifaðu ummæli