„Það mætti segja að ég haldi partýinu gangandi”

0

Á dögunum opnaði fyrsta “street food” mathöllin á Íslandi og óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr björtustu vonum. Á opnunarhelginni heimsóttu rúmlega 15.000 manns staðinn en hann hefur hlotið nafnið Grandi Mathöll.

Tónlistarmaðurinn góðkunni Franz Gunnarsson heldur utan um viðburði og markaðssmál staðarins en eins og hann orðar það heldur hann partýinu gangandi. Albumm náði tali af Franz og svaraði hann nokkrum spurningum um staðinn!


Hvað er Grandi mathöll og hvenær opnaði staðurinn?

Grandi mathöll er fyrsta “street food” mathöllin á Íslandi þar sem götubita fæði ræður ríkjum. Við opnuðum 1. Júní og viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum.

Ljósmynd: Susan Christianen.

Hvað er þitt hlutverk í mathöllinni og hverskonar matur er á boðstólnum?

Ég held utan um viðburði og markaðsmál, mætti segja að ég haldi partýinu gangandi. Það eru átta ólíkir staðir í húsinu og einn pop – up vagn þar sem frumkvöðlar í matargerð geta fengið að kynna sínar vörur tímabundið. Staðirnir bjóða upp á fisk og kjöt rétti, grænmetis rétti, súpur og brauð. Kaffi og vínbar er svo líka starfræktur í Granda mathöll.

Hefur eitthvað komið þér á óvart í starfinu og hvað er uppáhaldsstaðurinn þinn í höllinni?

Það hefur komið mér á óvart hversu hugmyndaríkt veitingafólkið er í að bera á borð frábæra og frumlega rétti. Ég er ekki búinn að ná að smakka allt á öllum matseðlum þannig að ég get ekki með sanni valið uppáhalds staðinn. Ég get hinsvegar sagt að ég hef bara smakkað frábæra rétti á öllum stöðum.

Er mathöllin komin til að vera og hvernig hefur verið tekið í þetta?

Já hún er pottþétt komin til að vera enda hannað sem samkomustaður fyrir fólk til að hittast og eiga gæðar stundir saman. Áður en langt um líður mun Grandi mathöll líka brydda upp á viðburðum sem munu án efa verða auka aðdráttarafl enda hvað er betra en að skemmta sér vel eftir æðislegan kvöldverð í góðra vina hópi. Á opnunar helginni heimsóttu 15.000 manns Granda mathöll og áhuginn því greinilega mjög mikill. Viðbrögðin hafa líka verið mjög jákvæð, yfirleitt fæ ég eitt orð frá gestum um upplifunina og það er “geggjað”.

Eitthvað að lokum?

Við hlökkum til að taka á móti þér lesandi góður og minnum á heimasíðuna grandimatholl.is þar sem bráðlega verður bætt inn viðburða síða með öllum upplýsingum um dagskrá. Við erum einnig á Facebook og Instagram ef fólk vill fylgjast með okkur. Já og við ætlum að sjálfsögðu að sýna frá heimsmeistaramótinu í fótbolta!

Skrifaðu ummæli