„ÞAÐ KRAUMAR RÍKT DÝRSEÐLI Í OKKUR MANNFÓLKINU“

0

Albumm frumsýnir glænýtt lag og myndband með hljómsveitinni Grúska Babúska sem ber heitið „Refurinn.“ Lagið er búið að vera talsvert lengi í vinnslu en grunnurinn af því varð til í sumarbústaðarferð. Lagið fjallar um veiðimennsku en í sínum víðtækasta skilningi.

Albumm.is náði tali af Hörpu Fönn og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um lagið, myndbandið og sumarið svo fátt sé nefnt.


Er lagið búið að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Já, þetta er heldur betur búið að vera langt ferli, og lærdómsríkt. Lagið er búið að vera að hefast síðustu mánuði, en hrár grunnur þess varð reyndar  til í sumarbústaðaferð sem við Guðrún Birna le Sage fórum í fyrir um tveimur árum síðan. Sá grunnur lá svo ofan í skúffu í einhvern tíma, eins og gengur og gerist, en var svo tekinn upp aftur þegar við grúskur fórum til Glastonbury í semjubúðir núna í september. Þar tók lagið miklum breytingum og hrærðist í nokkra daga innan um gyðjur og vætti Glastonbury.

Sönglaglínan fullmótaðist þar, sem gefur laginu þennan drungalega mystíska blæ. Við tókum einnig upp trommur, með aðstoð multi-instrumentalistsins Dan Poole, sem lyfti tónsköpuninni enn meira og gerði konstrastin, sem við einmitt leitum svo mikið eftir í tónlistarsköpun okkar. Einnig held ég að leikgleðin sem einkennir lagið hafi gersamlega fengið að brjótast út, en í Glastonbury vorum við að semja saman þrjár í fyrsta skiptið, og greinilegt að við vorum með margar hugmyndir og mikla sköpun í pokahorninu. Textinn og ýmsar lokaútfærslur urðu svo til í sumarbústaðaferð í vor. Síðan þá er maður auðvitað endalaust búin að vera að plokka í, edita og betrumbæta, sem gæti haldið áfram að gera endalaust ef út í það er farið. Á einhverjum tímapunkti verður maður að „let go“ og þá fórum við með lagið til Stefáns Arnars Gunnlaugssonar og layeruðum söng og gerðum lokatilfærslur. Stebbi hjálpaði okkur svo að lyfta laginu upp í fullklárað form með sinni snilldarhljóðblöndun og dásemdarsamstarfi.

Um hvað er lagið og hver er hugmyndin á bakvið myndbandið?

Lagið fjallar kannski helst um veiðimennsku! Eða þannig séð, og í sínum víðtækasta skilningi. Það kraumar ríkt dýrseðli í okkur mannfólkinu, sem á það til að brjótast út í skjóli nætur, eða þegar við höldum að aðrir sjái ekki til. Við eltumst við bráðina (hvort sem það eru peningar, völd, frægð, frami o.s.frv.) og leggjum allt í sölurnar. Við erum samt í raun að eltast við skottið á okkur, því á sama tíma erum við orðin að bráð mannlegra og samfélagslega þarfa og gilda, sem gætu tekið yfir ef við pössum okkur ekki. Myndbandið túlkar þetta í stuttu máli sem framakonuna sem hefur fórnað öllu, og þar á meðal sér sjálfri, við að eltast við drauma sína og halda öllu sléttu á yfirborðinu, en undir niðri kraumar dýrseðlið og Þráinn að fá að komast undan þessu öllu.

Á að herja á landann með spilamennsku í sumar?

Það vill svo dásamlega til að Íris er nýbúin að eignast sitt fyrsta barn, yndislegan strákhnoðra, og ég er ólétt einnig af mínu fyrsta barni. Okkur var boðið að spila á tveimur festivölum í sumar – Glastonbury festival og Halfway festival í Póllandi. Við erum að gera allt til að sjá hvort við komumst ekki á Halfway, en því miður er Glastonbury sömu helgi þannig að við þurftum að aflýsa því stórkostlega tækifæri. Vonandi getum við spilað e-ð meira, en það verður líklega minna en undanfarið vegna frumburðanna, en það er aldrei að vita.

Eitthvað að lokum?

Gleðilegt sumar!

Bandcamp

Spotify

Soundcloud

www.gruskababuska.com

Skrifaðu ummæli