ÞAÐ ER GAMAN AÐ HITTAST OG SPJALLA UM SKRÍTNA HLUTI

0

Hljómsveitin DMG var að senda frá sér smáskífuna ∆, en platan er sú fjórða sem sveitin sendir frá sér, en áður hafa plöturnar α, β og γ komið út. DMG er ein framsæknasta raftónlistarsveit landsins en tónar hennar snerta á tilfinningum hlustandans sem um leið slær í takt við lífið! Hér er á ferðinni frábær plata en það er íslenska raftónlistar útgáfan Möller Records sem gefur plötuna út. Skellið þessu í eyrun og fljúgið á vit ævintýranna! Albumm.is náði tali af DMG og svöruðu þeir nokkrum laufléttum spurningum.


Er platan búin að vera lengi í vinnslu?

Við erum þrír í DMG og erum alltaf að vinna að tónlist. Tengjum okkur saman í gegnum Dropbox og erum með tugi fæla í gangi hverju sinni. Elsta lagið er örugglega orðið tveggja ára gamalt eða eldra, á meðan yngsta lagið er nokkurra mánaða. Þegar við ákváðum að drífa þessa útgáfu af vorum við sæmilega fljótir að klára þetta. Tókum kannski mánuð eða tvo í lokafrágang. Það er mjög gaman að gera bara tónlist og bæta í safnið án þess að pæla í lokavöru, síðan þegar við viljum gefa út plötu þá höfum við úr miklu að velja. Þetta er fjórða stuttskífan okkar og planið er að gera eina útgáfu fyrir hvern bókstaf í gríska stafrófinu. Svo það er nóg eftir, 20 stuttskífur nánar tiltekið!

Hvernig mynduð þið lýsa plötunni í fimm orðum?

Eins og Francis Bacon málverk!

Hvaðan fáið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun?

Við deilum allir áhuga á allskyns list, tækni, vélmennum, heimspeki og öðru slíku. Erum oft að gera allskyns tilraunir með hljóð sem eru kannski ekki heppilegar til útgáfu. En það er gaman að hittast og spjalla um skrítna hluti, láta hugann reika og fikta í græjum. Tónlistin okkar verður oft til upp úr samræðum. Núna erum við líka búnir að gera svo mikið af tónlist að við erum orðnir okkar eigin innblástur, til dæmis er platan sem kom út á undan þessari mjög aggressív svo við vildum gera örlítið melódískari plötu núna.

Trúið þið á drauga og geimverur?

Geimverur, klárlega! Geimverur er nógu vítt hugtak og alheimurinn svo stór. Það er erfiðara að segja með draugana, það er erfiðara hugtak að skilgreina. Við trúum á Draug fortíðar!

Eitthvað að lokum?

Takk fyrir að sýna tónlistinni okkar áhuga. Tékkið á stuttskífunum okkar á heimasíðu Möller Records og hlustið á allt sem Möller hafa gefið út, það leynast gullmolar þarna!

Hægt er að versla plötuna á vef Möller Records.

Skrifaðu ummæli