„ÞAÐ ER EITTHVAÐ VIÐ SLÆMA MYND SEM VIRKIR HUGANN Á ANNAN HÁTT EN GÓÐ MYND“

0

Hugleikur Dagsson stendur fyrir heljarinnar prumpi í Bíó Paradís en þar sýnir kappinn verstu/bestu kvikmyndir í heimi. Hugleikur segir að hugmyndin sé stolin frá amerísku podcasti sem heitir „How did this get made?” En óhætt er að segja að hugmyndin sé bráðskemmtileg!


Hvernig datt þér í hug að sýna og tala um verstu kvikmyndir í heimi?

Hugmyndin er stolin frá amerísku podcasti sem heitir „How did this get made?” sem er reyndar ekki eina slæmumyndapodcastið í heiminum. Svona írosnískt dralgláp er vinsæl skemmtun. Það er bara eitthvað við slæma kvikmynd sem virkir hugann á allt annann hátt en góð kvikmynd. Sérstaklega ef maður hefur áhuga á kvikmyndagerð. Maður lærir svo mikið af mistökum annarra. Svo er líka svo gaman að horfa á svona í góðra vina hópi. Þá hlær maður að mistökum annarra. Þetta vekur upp kvikindið í manni.

Áttu þér uppáhalds verstu kvikmynd í heimi, og hvað er það við þá mynd sem þér finnst svo gott?

Mín uppáhald versta kvikmynd gæti hugsanlega verið „The Postman“ með Kevin Costner í aðalhlutverki og í leikstjórastólnum. Hún er svo mikið að reyna að vera epísk óskarsverðlaunakvikmynd en er í raun bara úrelt og kalkað rúnk. En hún hefur líka sína kosti. Það eru nokkrir flottir rammar í henni og er hún líka post apocalyptic mynd sem er mitt uppáhalds þema. Ég get örugglega samt aldrei sýnt hana í Bíó Paradís því hún er alveg þrír tímar. Hún tekur sig það alvarlega.

Hvað er það sem gerir kvikmynd lélega/góða?

Lélegheit þurfa helst að verða á mörgum vígstöðvum í einu til að mynd verði almennilega léleg/góð. Ef að handritið er steypa, leikararnir týndir og klippingin klaufaleg þá myndast fullkominn stormur af mistökum sem gefa af sér lítil kraftaverk eins og The Room, Troll 2 eða Showgirls. Ég er ennþá ekki 100% hvort sú síðastnefnda sé snilld eða drasl. Sú mynd er heillandi.

Hvað er hins vegar besta kvikmynd sem þú hefur séð?

Topp 3 hjá mér hefur ekki breyst í mörg ár. Það eru Akira, Brazil og Mad Max 2. Reyndar er Mad Max: Fury Road byrjuð að deila sætinu með Mad Max 2.

Hvenær hefst prumpið og við hverju má fólk búast?

Fyrsta Prumpið verður 12. október og þá sýnum við Cool As Ice með Vanilla Ice í aðalhlutverki. Emmsjé Gauti mun ræða um myndina með mér að sýningu lokinni. Við getum búist frábærri stemmningu. Þetta er svona tvöföld skemmtidagskrá. Fyrst hlæjum við að myndinni. Svo hlæjum við að greiningunni. Þá er líka um að gera að mæta 2. nóvember á Prump tvö þegar Páll Óskar kíkir í heimsókn með furðuverkið Double Agent 73 þar sem titilpersónan er njósnari sem er með myndavél í einu brjóstinu og sprengju í hinu. Jebb.

Eitthvað að lokum?

If you ain’t true to yourself then you ain’t true to nobody – Vanilla Ice í Cool as Ice.

Hægt er að nálgast miða á Tix.is

Dagsson.com

Skrifaðu ummæli