„það er búið að vera mikið ævintýri að alast upp í þessum kringumstæðum”

0

Hljómsveitin The Vintage Caravan er heldur betur á blússandi siglingu um þessar mundir en á næstu vikum sendir sveitin frá sér brakandi ferska breiðskífu. Fyrir skömmu sendu kapparnir frá sér lagið „Reflections” sem hefur verið að fá glimrandi dóma.

Margt er á döfinni hjá sveitinni og má þar tildæmis nefna heljarinnar tónleikaferð um Evrópu svo fátt sé nefnt! Albumm.is tali af Óskari Loga Ágústssyni söngvara og gítarleikara sveitarinnar og fór hann nánar út í öll herlegheitin sem eru framundan.


Djöfull er nýja lagið ykkar gott! Er það búið að vera lengi í vinnslu?

Kærar þakkir fyrir það! Gaman að sjá hvað fólk virðist taka vel í það. Lagið varð til frekar fljótt, ég kom með aðal riffið á æfingu í kringum apríl í fyrra, við djömmuðum á þessu saman og áður en við vissum af var þetta eiginlega komið. Gítarhljómarnir í erindunum voru upprunalega í öðru lagi á plötunni en hentaði betur þarna. Svo mætti Alex bassaleikari með textann og þetta var klappað og klárt.

Gítarsólóið framan af er eina sólóið á plötunni sem var samið, öll hin sólóin eru bara spuni í hita leiksins. Við eyddum samt miklum tíma í stúdíóinu og mixingferlinu að láta lagið hljóma eins og ljónið, sem tókst að mínu mati.

Hvaðan sækið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun og hvaða band getið þið hlustað á aftur og aftur?

Við sækjum innblástur frá ýmsum stöðum, hlustum á allskyns tónlist, allt frá Hall & Oats yfir í Dying Fetus. Þó ég sé örugglega minnsta alætan á tónlist í bandinu. Mér finnst það gefa mér innblástur að sjá góð bönd spila á tónleikum, það lætur mig vilja vera betri. Við aðhyllumst líka mikið hljómsveitum frá sjöunda og áttunda áratugnum eins og Jimi Hendrix Experience, Rush, Black Sabbath, Captain Beyond, Camel, Trúbrot ásamt mörgum fleirri. Við getum alltaf hlustað á Hall & Oats, kemur manni í svokallað instant fjör!

Von er á nýrri plötu frá ykkur, hvenær kemur hún út og hvað er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Nýja platan okkar heitir Gateways og kemur út 31. Ágúst út um allan heim. Við byrjuðum að semja stuttu eftir útgáfu seinustu plötu okkar Arrival (2015) við ákváðum eftir mikil ferðalög og mikla vinnu að taka hálft ár í frí sem var jan-júní 2017 sem ég eyddi mest megnis í að semja.  Svo eftir allar tónlistarhátíðar sumarsins fórum við í Ágúst í Sundlaugina í Mosfellsbæ og eyddum þar 20 dögum með Ian Davenport sem produce’aði og mixaði plötuna.

Það kom ýmist uppá og tók lengri tíma en við ætluðum í að koma henni út, hún kemur út ári eftir hún er tekin upp, en við ákváðum að bara eyða mikilli vinnu og gefa okkur tíma í að leyfa plötunni að verða eins vel soundandi og hún gat verið, allt skeður fyrir ástæðu.

Heljarinnar tónleikaferð er í vændum, hvenær hefst hún og hvert er heitið?

Já þetta verður svaka run, The Gateways Tour! 30 tónleikar, við sofum í nightliner rútu og er þetta headline tour, verðum með tvö upphitunar bönd og verður þetta mjög stíft. Förum til 13 landa, þýskaland, Ítalía, Belgía, Rússland, Sviss, Austurríki, Frakklands og víða í Evrópu.

Hvernig er að vera á svona tónleikaferðum og á þetta líferni vel við ykkur?

Þetta er ekki fyrir alla en við elskum þetta. Einstakt að vakna í nýju landi á hverjum degi og spila tónlistina okkar fyrir fólk sem kann að meta það sem við gerum. Þetta er auðvitað mjög erfitt líka en þetta er alltaf þess virði þegar maður er kominn uppá svið.  Þetta var alltaf draumurinn minn, þetta er búið að vera mikið ævintýri að alast upp í þessum kringumstæðum.

Ljósmynd: Burning Moon.

Áttu eina góða rokksögu og eitthvað að lokum?

Bassaleikari í mjög frægri hljómsveit sýndi einu sinni Alexi hvernig ætti að gera töff rokk move.. þegar sá umræddi bassaleikari var í sturtu. Það skeður margt fyndið og skemtilegt á tónleikaferðalögum, ekki allt sem maður getur deilt, haha!

Við erum með útgáfutónleika 31. Ágúst í Iðnó, og verðum einnig á Græna Hattinum 14. September! Takk fyrir viðtalið og kærar þakkir til aðdáanda okkar hérna heima!

Sjáumst!

Thevintagecaravan.eu

Skrifaðu ummæli