„Það er alls ekki slæmt að vera kominn í þennan félagsskap”

0

Hrafnkell Örn Guðjónsson eða Keli eins og hann er iðulega kallaður er einn helsti trommuleikari landsins og þó víðar væri leitað! Keli hefur svo sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann lemur húðir með hljómsveitinni Agent Fresco og hefur spilað með fjöldann allan af tónlistarfólki, svo langur er listinn reyndar að við gætum verið í heila nótt að þilja hann upp! Nýlega landaði keli samning við hljóðfærarisann Yamaha og er hann þá kominn í hóp með bestu trommurum heims!

Hljóðfærahúsið og Albumm.is halda nú af stað með viðburðarseríuna HEIMSÓKN Í HORNIÐ þar sem listafólk heimsækir sviðið í horni Hljóðfærahússins til að sýna hvað í þeim býr. Keli ríður á vaðið og lofar hann góðri stemningu en eins og hann orðar það ætlar hann að hafa þetta létt og óformlegt.

Albumm.is náði tali af kappanum og svaraði hann nokkrum spurningum um samstarfið við Yamaha og hvað mun fara fram í Hljóðfærahúsinu á morgun!


Hvað segir kappinn gott og hvar ertu staddur akkúrat núna?

Ég er bara í rækilegu stuði. Ég er hérna staddur á Krua Thai að gæða mér á Pad Thai. Ég reyni að borða sem mest af asískum mat með prjónum svo ég geti trommað meðan ég borða!

Hvað ert þú búinn að tromma lengi og hvernig fékkstu áhugann á trommuleik?

Ég byrjaði að tromma þriggja eða fjögurra ára gamall þegar nágranni minn eignaðist dótatrommusett og við stofnuðum hljómsveitina, Allt í botn. Draumurinn á þessum tíma var að geta spilað Final Countdown. Svo fór ég í Tónmenntaskóla Reykjavíkur þegar ég byrjaði í grunnskóla og lærði hjá Reyni Sigurðssyni sem var frábær kennari og veitti mér mikinn innblástur.

Ljósmynd: Brynjar Snær.

Þú varst að landa stórum samning við Yamaha, hvernig samningur er það og hvernig kom það til?

Ég hef átt margar tegundir af trommusettum gegnum ævina og hef alltaf verið mikill aðdáandi Yamaha. Svo í fyrra þegar ég var að spila með Agent Fresco í Hamburg hitti ég tvo starfsmenn hjá Yamaha. Þeir voru miklir aðdáendur Agent Fresco svo það var bara aðdáun á báða bóga. Við héldum svo sambandi og samstarfið skall á frekar náttúrulega. Núna er ég sponsoraður af Yamaha sem þýðir að þau gefa mér trommur og ég spila á þær með það að markmiði að kynna vörumerkið og kem líka fram á allskyns viðburðum eins og einmitt þessum sem verður í Hljóðfærahúsinu á morgun, föstudaginn 2. Nóvember.

Hvað þýðir svona samningur fyrir þig og ertu ekki kominn í hóp með bestu trommurum heims?

Þetta er náttúrulega fyrst og fremst mikill heiður, margir af mínum uppáhalds trommurum eru hjá Yamaha svo það er ekki slæmt að vera kominn í þennan félagsskap. Svo auðveldar þetta mér lífið töluvert.

Þú ert með heljarinnar stuð í Hljóðfærahúsinu á morgun (föstudaginn 2. Nóvember),  Við hverju má fólk búast?

Ég ætla að reyna að hafa þetta bara létt og óformlegt. Jú, ætli ég muni ekki nördast eitthvað en þetta verður líka skemmtilegt fyrir fólk sem kann ekkert á trommur.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það sem er framundan hjá mér er auðvitað Airwaves þar sem ég mun spila með Agent Fresco, Emmsjé Gauta og SURU. Að því loknu byrjum við að jólasveinast og undirbúa Jülevenner Emmsjé Gauta. Svo á meðan á öllu þessu stendur erum við Fresco að taka upp nýja plötu.

Takk fyrir mig!

HEIMSÓKN Í HORNIÐ fer fram á morgun föstudaginn 2. Nóvember í Hljóðfærahúsinu, Síðumúla 20 og hefst stuðið kl 17:00. Hægt er að sjá Facebook viðburðinn hér.

Hljodfaerahusid.is

Hljóðfærahúsið á Instagram

Albumm.is á Instagram

Skrifaðu ummæli