TEITUR MAGNÚSSON

0
Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Teitur Magnússon hefur heldur betur sungið sig inn í hjörtu landsmanna að undanförnu en hann sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu 27 fyrir ekki svo löngu. Teitur er einnig meðlimur hljómsveitarinnar Ojba Rasta en kappanum er svo sannarlega margt til lista lagt. Teitur er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá hvernig hanns tónlistarferill byrjaði, tilnefningu sinni til Norrænu Tónlistarverðlaunanna og hvaðan hann fær innblástur fyrir sína tónlistarsköpun svo fátt sé nefnt.


Hvenær kviknaði þinn tónlistaráhugi, hvenær byrjaðir þú að semja tónlist og  hvernig kom það til?

Ég man eftir mér syngjandi og spriklandi frá fyrstu tíð. Ég var hvattur áfram af systrum mínum og foreldrum. Söng fyrst opinberlega þriggja ára gamall í brúðkaupi frænku minnar. Ég man eftir að hefja upp raust mína og skyndilega er eins og heil hljómsveit fylgdi mér í gegnum lagið. Þegar ég lít um öxl sé ég eldri mann á skemmtara að leggja mér lið. Kannski kviknaði neistinn þarna. Ég söng ekkert opinberlega næstu tíu árin en var reglulega minntur á hvað ég hefði sungið fallega í brúðkaupinu. Ég lærði smá á blokkflautu sex ára, eins og gengur, fór svo að læra á gítar tíu ára og fékk rafmagnsgítar í fermingargjöf. Þá fór ég fljótlega að setja saman hljómsveitir, semja lög og syngja. Ég man að kvikmyndin Rokk í Reykjavík hafði mikil áhrif á mig, bæði tónlistin og attitjúdið.

ttr-12

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Erfðir og upplifun meittlast í verkin sem koma frá manni. Allt er „collage.“ Það sem veitir mér innblástur er oft litlar pælingar sem birtast mér, þær skolast til, blandast við annað og verða þannig sjálfstæðar verur, eiga oft mjög lítið skylt með upprunalega samhenginu og öðlast þannig framhaldslíf í annari vídd. Svolítið eins og raftónlistarmenn sampla, breyta og bjaga þar til nýtt lag er komið í gang. Ég hef áhuga á lagasmíðum og önglum, maður hefur gáttirnar opnar og gefur sér tíma og rými. Það sem ég leitast við að skapa er tónlist og textar sem ég myndi njóta að hlusta á sjálfur, tónlist sem myndi kveikja í mér ef ég heyrði hana á förnum vegi. Það er gullna reglan. Þeir sem ég hef hlustað mest á í gegnum tíðina eru: Bowie, Marley og Lennon. Þeir hafa samið svo gífurlega mörg góð lög auk þess sem ég tengi við sönginn og persónurnar. Ég sæki áhrif um víðan völl en þegar nefna á nöfn sem ég hef mest hlustað á þá koma þessi upp.

Þú ert einnig meðlimur hljómsveitarinnar Ojba Rasta hver er munurinn á að semja einn síns liðs eða sem hljómsveit?

Mjög svipað, því við semjum yfirleitt sitt í hvoru lagi í Ojba Rasta, síðan leggjum við lagið undir hina og það slípast til í gegnum æfingar og tónleika. Á 27 samdi ég lögin sjálfur en textana ásamt Skarphéðni Bergþórusyni frænda mínum og lagði undir hann og fleiri í leiðinni ýmsar pælingar. Það flýtir gífurlega fyrir og þéttir ferlið að hafa einhvern til að leggja pælingarnar undir. Tónlist er jú konfekt sálarinnar, skotspónn hugans.

ttr-10

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Platan þín 27 hefur fengið glymrandi dóma að undanförnu, var platan lengi í vinnslu og áttirðu von á svona góðum viðtökum?

Platan tók eitt ár tuttugasta og sjöunda ár lífs míns. Ég byrjaði að semja í janúar þegar ég átti afmæli, síðan tek ég hana upp yfir há sumarið og gef hana út í desember. Ég fann strax að platan væri sérstæð lífvera. Hún fæddist og öðlaðist sjálfstætt líf. Ég sé hana sem vitnisburð um ákveðið tímabil, jafnvel einskonar tímahylki eða sjálfstæða veröld sem hlustandinn getur stígið inn í um leið og nálin leggst í grófina. Ég var ekki með væntingar en er þó þakklátur að finna viðbrögðin.

Nú ert þú tilnefndur til norrænu tónlistarverðlaunanna ásamt Björk Guðmundsdóttur kom sú tilnefning þér á óvart og hvað þýðir þetta fyrir þig?

Verðlaunanefndin hafði samband og vildi fá plötur, þannig ég vissi að ég væri í úrtakinu svo að segja. Það að ég skuli vera tilnefndur ásamt Björk er mikill heiður. Ég mun fara til Noregs og vera viðstaddur verðlaunaathöfnina sem haldin er í tengslum við by:Larm tónleikahátíðina í Ósló. Þar gefst mér tækifæri til að hitta allskonar fólk og jafnvel miðla plötunni til nýrra eyrna.

ttr-8 (1)

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikar sem þú hefur spilað á og hvað gerir góða tónleika?

Það sem gerir góða tónleika er þegar allir hrífast með og ég þar með talinn. Þegar það kemur upp sá tímapunktur að ekki verður aftur snúið, allir komnir á siglingu saman. Vel flestir tónleikar sem ég hef spilað innihalda slíka upplifun í mismunandi útgáfum.

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Getur þú nefnt mér fimm plötur sem hafa haft áhrif á þig og þína tónlistarsköpun og hvernig höfðu þær áhrif á þig?

1. Prodigy – Fat of the Land. Þetta var fyrsta platan sem ég keypti á eftir Halla og Ladda í Strumpalandi. Algjör djöfulgangur sem grúvar mann í döðlur, Baneitrað.

2. Bítlarnir – tvöfalda bláa safnplatan. Ég man eftir að koma heim úr skólanum 10 ára og setja þetta á. Heyra flugvélina drynja í gegnum stofuna, inngangurinn á Back in the USSR og einkapartíið hafið.

3. Queen – The Game. Man eftir að koma heim úr 7. bekk og smella disknum í tækið og samloku í grillið. Ljúf rödd Freddy verulega styrkjandi, illa þétt grúv í laginu Dragon Attack.

4. Bob Marley – Uprising. Sterk plata. Rosaleg.

5. David Bowie – Low. Listrænir möguleikar popptónlistar opnast upp á gátt um leið og Bowie er hleypt inn. Ískaldir en seiðandi tónar.

ttr

Ljósmyndir: Hafsteinn Viðar Ársælsson fyrir Albumm.is

Er lífið skemmtilegt og hvað er framundan hjá þér?

Lífið er stórbrotið og gífurlega skemmtilegt. Framundan er m.a. Noregsferðin fyrrnefnda og svo að hjálpa til með umsjón Reykjavík Folk Festival sem verður haldið á Kex Hostel 10.-12. mars. Tónlist fyrir Fólk! Ást & friður.

FYLGIST NÁNAR MEÐ TEITI Á:

https://www.facebook.com/teiturmagnussonmusic/

Comments are closed.