Teitur Magnússon með nýtt myndband við titillag nýjustu plötu sinnar

0

 

Teitur Magnússon hefur sent frá sér tónlistarmyndband við titillag nýjustu plötu sinnar, Orna, sem kom út á Spotify fyrir helgi. Leikstjóri myndbandsins er Logi Hilmarsson, en handritshöfundur og framleiðandi er Magnús Björn Ólafsson. Í lok júlí kom platan út á vínyl og geisladisk í umslagi hönnuðu af Ragnari Fjalari Lárussyni.

Magnús segir að með myndbandinu hafi hann og Logi Hilmarsson gert tilraun til að heiðra þann galdur sem Teitur miðlar með tónlist sinni.

„Í þessu myndbandi fetum við leið sannleikans, sem liggur auðvitað inn á við, að eldinum helga—frumkraftinum sem sameinar alla menn—og horfumst í augu við ýmsar hliðar sjálfsins, sem hverfast eins og lauf í vindi í kringum brennandi bálið. Og auðvitað liggur leið sannleikans að lokum að því eina sem er raunverulegt og skiptir einhverju máli: ástinni og kærleikanum. Og þangað rennur tónlistin hans Teits líka.“ – Magnús

Magnús segir að þeim þótti ákaflega vænt um að fá tækifæri til að vinna með Teiti, því tónlistin hans hefur lengi verið í sérstöku uppáhaldi hjá þeim báðum. „Hún er gædd þeim töframætti að lyfta manni á einhvern undraverðan og silkimjúkan máta upp á hærra sálarsvið—svið þar sem maður uppgötvar á ný fegurð, alvöru og léttleika tilverunnar, og fyllist þakklæti fyrir það eitt að fá að vera til. Ég vona að okkur hafi tekist að heiðra kærleikann og að sem flestir njóti verksins.“ Segir Magnús að lokum.

Útgáfutónleikar verða haldnir í Iðnó 12. október næstkomandi, en miðasala fer fram á Tix.is.

Skrifaðu ummæli