TEITUR MAGNÚSSON Í BLIKKTROMMUNNI MIÐVIKUDAGINN 1. FEBRÚAR

0

teitur

Teitur mun stíga á stokk á fyrstu hljómleikum Blikktrommunnar á árinu en hann hefur dvalið í hljóðveri að undanförnu og unnið hörðum höndum að smíði annarar sólóplötu sinnar sem beðið er með mikilli eftirvæntingu. Teitur hefur fengið til liðs við sig upptökustjórann Leif Björnsson (Low Roar) og er fyrsta lag plötunnar væntanlegt í spilun á fyrstu mánuðum ársins en þar kveður við aðeins nýjan tón frá þeim sem sveif yfir vötnum á fyrri plötunni. Á hljómleikum Blikktrommunnar mun Teitur koma fram ásamt einvala liði hljóðfæraleikara, og leika nýtt efni sem ekki hefur áður heyrst á hljómleikum, í bland við eldra efni.

teit
Teitur Magnússon ætti að vera íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnur en fyrsta plata hans undir eigin nafni, Tuttugu og sjö fékk frábærar viðtökur bæði hlustenda og gagnrýnenda er hún kom út árið 2014. Þar bar líklega hæst lagið „Nenni,“ frumsamið lag við ljóð Benedikts Gröndal. Hljómplatan var svo tilnefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna en meðal annara platna sem tilnefndar voru var m.a. Vulnicura plata Bjarkar Guðmundsdóttur. Áður hafði Teitur gert garðinn frægan sem söngvari og lagahöfundur reggae-sveitarinnar Ojba Rasta sem einnig var mjög vinsæl.

Tónleikaröðin Blikktromman byrjaði haustið 2015 og hefur gengið vonum framar. Áhersla er lögð á að bjóða upp á tónleika með nokkrum af okkar fremstu tónlistarmönnum í því nána og gæðaumhverfi sem Kaldalón salur í Hörpu býður uppá. Eftir tónleikana gefst gestum kostur á að sitjast niður með drykk og útsýni yfir smábátahöfnina, með góða tónlist í bakgrunninn. Ekkert vesen, bara gæði.

Meðal listamanna sem komið hafa fram á Blikktrommunni eru; Sóley, Högni Egilsson, Valdimar & Örn Eldjárn, Mr. Silla, Sin Fang, Úlfur Eldjárn, Tina Dickow & Helgi Hrafn Jónsson og Benni Hemm hemm, Snorri Helgason, Úlfur úlfur, President Bongo & The Emotional Carpenters og Soffía Björg.

Miðasala fer fram á harpa.is

Skrifaðu ummæli