SVEINN GUÐMUNDSSON

0

Sveinn Gudmundsson copy

Sveinn Guðmundsson gaf út plötu í lok síðasta árs sem heitir „Fyrir herra Spock, MacGyver og mig“ Sveinn gaf hana út sjálfur en vinur hanns Magnús Leifur Sveinsson (söngvari og gítarleikari Úlpu og Thundercats) tók hana upp. Platan samanstendur af rólyndis gítarmúsík með sjálfspeglandi textum. Lögin byggjast upp á gítar og söng en eru studd af kontrabassa, básúnu, ritvél, melódiku og einstaka rafmagnsgítar. Textarnir eru um magaólgur, grímuböll, frændur, klukkur, feluleiki, ketti, skugga, sár, og hann sjálfan. Gaman að segja frá því að Óli Dóri í útvarpsþættinum „Straumur“ á X-inu valdi eitt lag af plötunni sem heitir „MacGyver og ég“ eitt af 30 bestu lögum síðasta árs og það rataði svo inn á safnplötu setta saman af Icelandic music export. Sú plata var síðan send til Ameríku til að vekja athygli á Íslenskri tónlist.


Ein fyrsta minning mín er að horfa á pabba minn syngja með hljómsveitinni sinni „Randver“ í Íþróttahúsinu við Strandgötuna í Hafnarfirði, ákvað þá að mig langaði að verða tónlistarmaður. Ég var í bílskúrsböndum með vinum mínum þegar ég var unglingur, meðal annars í pönksveitinni „AmmA.“ Spilaði þá á bassa og Árni vinur minn á gítar en það gekk illa að halda í trommara, fórum í gegnum þrjá slíka. Svo datt söngvarinn líka út og ég reyndi að syngja en var eiginlega bara að öskra. Svo liðaðist bandið í sundur. Þá fór ég að spila með Krissa bróður mínum og við vorum í nokkrum böndum saman, þar á meðal „Girlieboys“ og „Juel Juel Juel“. Eftir það höfum við bræðurnir alltaf spilað lögin okkar fyrir hvorn annan og borið saman bækur. Það er afar gott að fá almennileg komment á hvað er að virka og hvað ekki. Maður getur orðið svolítið blindur á eigið efni ef maður er búinn að vera að vesenast í því lengi.

Svo var ég í Karlakórnum Fjallabræður í tvö ár en hætti í kórnum um svipað leyti og ég kynntist Magnúsi Leifi Sveinssyni fyrrum söngvara og gítarleikara „Úlpu“. Hann heyrði mig spila lag í partíi og bað mig um að kíkja í litla stúdíóið sitt og leyfa sér að heyra restina af lögunum mínum. Ég spilaði fyrir hann 12 lög og hann bað mig um að vera lokaverkefnið sitt í hljóðtæknináminu sínu. Við tókum upp gítar og söng sem hann mallaði saman, skilaði inn og útskrifaðist. Eftir skólann var ég svo heppinn að hann var atvinnulaus í nokkrar vikur og hafði nægan frítíma svo við héldum áfram að taka upp. Útkoman varð „Fyrir herra Spock, MacGyver og mig„. Ég gaf hana út og dreifði og vissi ekkert hvað ég var að gera. Ég hannaði albúmið og fékk hjálp við að taka myndir og setja það upp. Ég vildi ekki vera sjálfur framan á því svo ég hafði hægindastólinn minn í staðinn. Hann er gamall og lúinn og hefur elt mig út um allt. Í honum, hugsa ég og hugleiði og geri allt sem skiptir máli.

sveinn_gudmundsson_fhsmom_cover_bc.1M

Ég gaf út plötuna í nóvember í fyrra, hélt útgáfutónleika og svo aðra með bandi. Svo byrjaði ég nýja árið á því að handleggsbrjóta mig og þá fór allt á bið. Fór svo aftur í gang með vorinu og er búinn að vera að spila heilmikið síðan. Hér og þar í borginni, í sjóminjasafni, gamalli sundhöll, félagsheimili út á landi og lítilli kirkju. Ég er mest að koma fram einn með gítarinn en er af og til með band með mér sem samanstendur af Hálfdáni Árnasyni úr „Himbrima“ og „Differerent Turns“ á bassa, Ívari Atla Sigurjónssyni sem er einnig í „Different Turns“ og „Vítiskvölum“ á gítar, munnhörpu, áslátt og fleira og svo er Magnús Leifur á gítar, básúnu, melodiku og allt annað sem þarf að gera.

Í dag er ég að semja efni og stefni á að taka upp nýja plötu á nýju ári, er kominn með 8 ný lög sem ég er að prófa hægt og rólega á tónleikum.

 

 

 

Comments are closed.