SVAVAR KNÚTUR

0

IMG_6423

Svavar Knútur er með ástsælustu tónlistarmönnum landsins en hann var að senda frá sér breiðskífuna Brot. Svavar hefur komið víða við á viðburðaríkum ferli en hann er viðmælandi vikunnar á Albumm.is og sagði hann okkur frá nýju plötunni, hvað er hanns helsta yrkisefni og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.


Hvenær kviknaði þinn tónlistaráhugi og hefur gítar alltaf verið þitt aðal hljóðfæri?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og að spila og syngja. Ég ólst hins vegar upp í sveit og hafði ansi takmarkaðan aðgang að tónlistarlífi og straumum og stefnum, þó auðvitað hlustaði maður á „Radio Luxembourg” á stuttbylgju og síðan Rás 2 og svona. Svo áttu pabbi og mamma voða fínt vínylsafn, þar sem meðal annars voru War of the worlds eftir Jeff Wayne og Prúðuleikaraplatan, plús alls konar dót. Maður var innblásinn af alls konar litlum hlutum. Þegar ég flutti í bæinn fór maður að kynnast alls konar áhugaverðu dóti, svona í gegnum fólk sem var að benda manni á nýja tónlist og svo eftir öðrum kanölum þegar internetið fór að verða stærri hluti af lífinu. Svo var ótrúlega skemmtilegur þáttur á MTV tímabili sem hét „Alternative Nation“ og spilaði alls konar súr myndbönd. Það var áður en MTV varð algert drasl.
Ég byrjaði að læra á píanó, en gítarinn tók við þegar ég varð unglingur og langaði að heilla stelpur. Heillaði voða lítið af stelpum á endanum samt, var svo feiminn og utanveltu eitthvað. En það er ótrúlega gaman að leika sér á hljóðfæri og upplifa alltaf nýjar leiðir og tæknir og hugmyndir til að spila á það. Bara gítarinn, með sína sex strengi er það fjölbreyttur að maður getur verið alla ævina að læra á hann, en samt bara kunnað lítinn hluta af allri þeirri tækni sem hann býður upp á.

Hefur þú alltaf verið einn með gítarinn eða áttu þér sögu í hljómsveitarbraski?

Ég brallaði eitthvað pínulítið í hljómsveitum á sínum tíma. Var eitthvað að pönka með nokkrum vinum í smá tíma, söng uppáhalds 80’s slagarana með bandinu Moonboots og alls konar djamm og svona. Svo var ég í hljómsveitinni Hraun líka, sem gerði alls konar. En ég held að feimni mín og félagsfælni hafi gert það dálítið erfitt fyrir mig að nálgast aðra tónlistarmenn til að vinna með, svo ég graviteraði rosalega mikið að þessu að vera einn. Mér finnst það voða notalegt og það hefur mótað það sem ég geri, að vera minimalískur og leita í einfaldleikann.

Hvaðan færðu innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Textarnir mínir eru rosalega mikið byggðir á lífinu mínu bara. Þessi leit að einhvers konar sáluhjálp og að vinna með allt drullið í sálinni og hjartanu og hjálpa öðrum með því að hjálpa sjálfum sér.
Hvað varðar tónlistarinnblástur, þá kemur hann virkilega víða að. Allt frá Prúðuleikurunum og Jeff Wayne yfir í Tom Waits, Nick Cave, Basement Jaxx, Pixies, Smiths og NIN. Svo finnst mér ótrúlega gaman að hlusta á nýtt íslenskt stöff og það sem tónlistarmenn frá Færeyjum og Grænlandi eru að gera. En oft þykir mér líka gott að útvíkka þægindarammann og tékka á einhverju sem mér finnst skrýtið og pínu óþægilegt t.d. Noise og hörð raftónlist. Þó ég sé ekki vel inni í því, þá koma oft mjög töff hugmyndir fram í þannig tónlist.

Þú varst að senda frá þér nýja plötu sem nefnist Brot, var hún lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Það var merkilegt hvað við vorum fljótir að taka upp Brot. Lögin urðu til á þriggja ára tímabili, en þegar við Stefán Örn upptökustjóri byrjuðum á þessu, tókum við fyrst upp helstu grunna í Aldingarðinum en skiptum svo vinnunni á milli Aldingarðsins og mín. Ég tók semsagt upp mikið af söng, gítar, strengjum og svoleiðis heima, í sumarbústað fjölskyldunnar og í Fella- og Hólakirkju á meðan Stebbi lék sér í Aldingarðinum með lögin sem við vorum búnir að ákveða að yrðu aðeins meira útsett og skellti upptökunum mínum inn. Það var skemmtilegt ferli.
Brot er náttúrulega mun útsettari og aðeins kraftmeiri á köflum en fyrri plöturnar mínar, en ég held það sé algerlega í takt við þann stíganda sem á sér stað á þeim.

Portrait_Tiefenlicht-2040sm

„Þegar ég átti að byrja var enginn í salnum, svo ég byrjaði að taka saman. Þá hljóp inn Frakki sem reyndist mikill aðdáandi og hafði keyrt frá Reykjavík til að ná þessum tónleikum.“ – Svavar Knútur

Hvenær kom þín fyrsta plata út og ef þú berð hana saman við nýju plötuna hver er þá munurinn?

Fyrsta platan mín, Kvöldvaka kom út árið 2009. Við tókum hana upp á einum og hálfum degi og hún var rosalega hrein. Gítar og Söngur tekin upp á einn mæk og svo rétt pínulitlir layerar ofan á. Það var meðvituð ákvörðun, bæði í ljósi þess að ég var skítblankur, hrunið alveg í algleymi og við unnum með mjög lítið budget til að taka plötuna upp. Svo er það líka alltaf keyrandi á bakvið hjá mér, að gera tilraunir með hversu minimalískt maður getur unnið en samt haft áferð á tónlistinni.
Á Ölduslóð, sem kom út 2012, útfærði ég aðeins meira, en vann líka með þá hugmynd að gefa í skyn ákveðnar útsetningar, en ekki taka þær alla leið, heldur leyfa áheyrandanum að útfæra í hausnum. Mér fannst það skemmtilegt og útkoman var að mínu mati mjög góð.
Brot tekur allt aðeins lengra. Lögin sem eru útsett eru mun meira útsett á Broti, en svo eru fjögur lög sem eru algerlega bara gítar eða ukulele og söngur.
Svo er náttúrulega Kvöldvaka ákveðið upphaf að sögunni sem ég var að segja og Brot er lokin. Það verkefni hét „Songs of Misery and redemption“ og svo gerði ég EP plötu sem inniheldur eitt lag af hverri af þessum þremur og eitt aukalag. Hún heitir Songs of Weltschmertz, Waldeinsamkeit and Wanderlust og tengir saman plöturnar, myndar nokkurs konar lykil að þeim öllum. Það er ótrúlega gaman að skapa heildarverk og segja eina sögu í þremur plötum.

Um hvað eru textarnir á nýju plötunni og hvað er þitt helsta yrkisefni?

Textarnir á Brot fjalla þó nokkuð um endurlausnina, að lifa af, að finna nýjan tilgang eftir brotsjóinn. Í grundvallaratriðum hafa Kvöldvaka, Ölduslóð og Brot að miklum hluta verið að segja eina stóra sögu, sem er sorgarferlið mitt eftir að pabbi dó. Hann dó í snjóflóðinu á Flateyri 1995 ásamt 19 öðrum nágrönnum, ættingjum og vinum. Þetta var rosalegt sjokk og það má segja að sorgarferlið mitt hafi fengið afturfótafæðingu. Ég var algerlega fucked í átta ár, dofinn og tættur og var mjög þunglyndur, náði samt að fúnkera nokkurn veginn og halda andlitinu. Það var ekki fyrr en ég byrjaði að semja lög um þetta að ég fór að ná tökum á því að byrja að syrgja. Þá fór ég í það verkefni að vinna mig í gegnum þetta allt í gegnum tónlist. Fólk tengdi vel við það og þá varð til ákveðið mótíf hjá mér að bara opna fyrir þetta og vinna mig í gegnum haughúsið þangað til ég kæmi á góðan stað. Þannig að þessar þrjár plötur hafa í raun verið þetta ferðalag. Flott að vera búinn að því og nú taka við ný umfjöllunarefni. Næsta plata verður líklega með allt önnur yrkisefni og pælingar. Maður verður að halda áfram að þróast, en það verður alltaf að vera eitthvað innan úr manni sjálfum.

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á og hvað gerir góða tónleika?

Þeir eru nú þó nokkrir orðnir og ótrúlega margir góðir. Ég get ekki nefnt neina eina. En ég hef tvisvar spilað fyrir einn. Það voru geðveikir tónleikar, báðir. Í annað skiptið hafði hótelið á Ísafirði beðið mig um að spila á meðan Aldrei Fór Ég Suður var í gangi og sama hvað ég reyndi að útskýra fyrir þeim að það yrðu allir á Aldrei þá gáfu þeir sig ekki og buðu mér gistingu og mat og ég var að spila hvort eð er á Aldrei, svo ég bara sló til. Þegar ég átti að byrja var enginn í salnum, svo ég byrjaði að taka saman. Þá hljóp inn Frakki sem reyndist mikill aðdáandi og hafði keyrt frá Reykjavík til að ná þessum tónleikum. Við settumst bara við borð með gítarinn og ukuleleð og tvær rauðvínsflöskur saman og ég spilaði öll óskalögin hans. Það var góð stund. Bestu tónleikarnir eru þegar maður nær góðu sambandi við áhorfendurna, þegar það myndast svona flæði á milli og allt er eins og einn fljótandi draumur. Þetta total-flæði er alger snilld og er farið að gerast oftar og oftar. Þegar áhorfendurnir renna saman í eina sál og maður endar bara í tveggja klukkutíma sleik við þá.

IMG_6187

„Að vísu virðast ungir listamenn í dag hafa miklu meira sjálfstraust og þekkingu en ég hef nokkurn tíma haft, svo maður ætti kannski ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim. Ég allavega vona að ferillinn minn haldi áfram að vaxa á svipaðri braut og hann hefur verið að gera.“ – Svavar Knútur

Hvernig tónlist hlustar þú á og geturðu nefnt fimm plötur sem þú getur alltaf hlustað á?

Ég get ekki sagt að ég sé alæta á tónlist. Ég á rosalega erfitt með svona væmið R&B og verksmiðjukántrý a-la Taylor Swift, sama hvað einhverjir flottir indie gaurar reyna að gera það töff by association. Ég á rosalega erfitt með allt sem ég upplifi sem tilgerðarlegt eða þvingað. En ég elska góða framsækna indie tónlist, pönk, metal, valið electro og hip hop, góða söngvaskáldatónlist, læðist í klassíkina líka. Eiginlega finnst mér bara æði að hlusta á allt sem er með hjarta eða gert af heilindum. Ef maður heyrir að tónlist er gerð af ást, þá getur maður alltaf fundið eitthvað til að fíla í henni.

Fimm plötur sem ég get alltaf hlustað á? Hmm … Low – Secret name og The Great destroyer. Texas Jesús – Jæja vinur. Mugison – Mugimama is this monkey music? Pavement – Allar plöturnar með Pavement. Nick Drake – Pink moon.

Um leið og söngvaskáldsformið er æðislegt að vinna með, þá er til rosalega mikið af ógeðslega leiðinlegum „Singer-songwriters” og ég held það skýrist að miklu leyti af því að svoleiðis tónlist er svo nakin að það er svo auðvelt að sjá gallana og þeir verða svo svakalega áberandi. Það er miklu auðveldara að fela gallana og gæðaskortinn bak við rosa bissí hljómsveit. Þú getur falið ansi mikið af drasli bak við góða production eða killer trommara eða gott sánd, en einn gaur með gítar getur bara ekki falið það ef hann sökkar.

Hvað er á döfinni fyrir árið 2016 og hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Úff … Það eru allavega tvær til þrjár tónleikaferðir til Evrópu. Ein til Bandaríkjanna og Kanada. Svo er ég að vinna í leikhúsi í Þýskalandi í vor, að semja og flytja tónlist í leikverki og leika nokkur hlutverk í leiðinni. Það er ekki leiðinlegt. Svo er ég að spila á nokkrum litlum festivölum úti í sumar og haust, m.a. í Noregi, Sviss, Þýskalandi og Bandaríkjunum og svo Eurosonic núna eftir nokkra daga. Svo má maður heldur ekki vanrækja landið sitt, svo ég ætla að taka dálítið af spilamennsku í sumar og haust úti á landi. Þetta verður allt að verkast einhvern veginn. Ætli maður skelli ekki í einhver skemmtileg samvinnuverkefni ef maður hefur tíma. Ég var að kynnast frábærum færeyskum gaur sem heitir Heiðríkur og mig langar rosalega að hjálpa honum að koma sér á framfæri hér á Íslandi með lögin sín. Bara svona alls konar framundan. Eftir tíu ár vona ég bara að ég verði enn að vinna í tónlist, syngjandi, spilandi, semjandi, pródúserandi, hjálpandi yngri listamönnum að stíga sín fyrstu skref og láta ekki trampa á sér. Að vísu virðast ungir listamenn í dag hafa miklu meira sjálfstraust og þekkingu en ég hef nokkurn tíma haft, svo maður ætti kannski ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim.  Ég allavega vona að ferillinn minn haldi áfram að vaxa á svipaðri braut og hann hefur verið að gera, þá þarf ég engu að kvíða. Þetta lofar mjög góðu. Ég trúi því allavega að ef maður er algerlega heill og einlægur í því sem maður er að gera, þá þarf maður engu að kvíða. Ég hef aldrei séð fyrir mér einhvers konar rokkstjörnupælingu, heldur bara það að geta spilað tónlistina mína fyrir fólk sem langar að heyra hana og lifa á því og láta fólki líða vel með henni. Mér finnst það æði.

 
Hægt er að fylgjast með Svavari Knúti á:

https://twitter.com/svavarknutur
http://www.svavarknutur.com/
https://www.facebook.com/SvavarKnutur/?fref=ts
https://www.reverbnation.com/svavarknutur
http://svavarknutur.bandcamp.com

Comments are closed.