SVALA BJÖRGVINSDÓTTIR

0

svala 11

Svala Björgvinsdóttir er ein ástsælasta söngkona Íslands en hún hefur verið í sviðsljósinu frá barnsaldri. Svala er ekki bara tónlistarkona heldur einnig fatahönnuður og tískufyrirmynd og nú þjálfari í Íslenska The Voice sem hefst nú á föstudaginn 2. Október. Svala kom í mjög skemmtilegt viðtal við Albumm.is og sagði hún okkur frá ævintýrum sínum í Los Angeles, hljómsveit sinni Steed Lord og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.


Hver er þín fyrsta tónlistarminning og hefur tónlist alltaf spilað stórt hlutverk í þínu lífi?

Fyrsta minning mín um tónlist er þegar ég sit í sófanum heima hjá mömmu og pabba þegar við bjuggum að Vitastíg 1 í Hafnarfirði, ég var sirka sex eða sjö ára og pabbi var að hlusta á Pavarotti og lagið Nessun Dorma.  Mér fannst það svo fallegt að ég fór að gráta og man hvað lagið snerti mig mikið þó svo ég væri svona ung.  Það var fyrst þá sem ég uppgötvaði hvað ég elskaði tónlist mikið, tónlist er líf mitt.  Ég hef alltaf sungið og samið tónlist frá því ég var lítil stelpa og verið í kringum tónlistarfólk og tónlist spilar mega stórt hlutverk í mínu lífi.  Ég gæti ekki lifað án tónlistar því það er næring fyrir sálina.

svala 2

„Reykjavík er bara eins og eitt lítið hverfi í LA, þannig þú getur rétt ímyndað þér hvað allt er flóknara og erfiðara.“ – Svala

Er einhver ein tónlistarstefna sem hefur fylgt þér alla æfi og hvernig tónlist hlustar þú á í dag?

Ég myndi segja að það sem hefur fylgst mér lengst er tónlistin sem foreldrar mínir hlustuðu á þegar ég var að alast upp. Það var allt frá Pavarotti, Nat King Cole, Patsy Cline, Jerry Lee Lewis, Elvis Presley, Fleetwood Mac, Bítlarnir, Rolling Stones og klassísk tónlist eins og Bach og Rachmaninov. Ég hlusta mikið á kvikmyndatónlist og þá meina ég instrumental scores úr bíómyndum. Ég elska rapp og r’n’b og svo auðvitað raftónlist en hún er alltaf í uppáhaldi og þá ber að nefna hljómsveitir eins og Booka Shade, Aeroplane, Daft Punk og fleiri. Einnig elska ég íslenska dægurlagatónlist eins og pabba minn,Stuðmenn, Grafík og Bubba.  Íslenska tónlistin klikkar ekki. Manni hlýnar alltaf um hjartarætur þegar maður hlustar á íslenska tónlist og þá sérstaklega þegar maður hefur búið erlendis svona lengi eins og ég. Held mikið uppá Sigur Rós, Ásgeir Trausta, Legend og Gus Gus. Whitney Houston er í mega uppáhaldi, Michael Jackson og Prince. Er alger superfan á þau öll þrjú.

Processed with VSCOcam with c9 preset

„Ég hef alltaf elskað tísku og að sauma. Hef saumað á mig föt og búninga frá því ég var unglingur. Við Steed Lord hönnuðum fatalínu fyrir H&M árið 2007 sem var seld í 120 búðum í 52 löndum og þá rann upp fyrir mér að ég gæti svo sem alveg gert mína eigin línu.“ – Svala

Nú ert þú búsett í Los Angeles, hefur það breytt einhverju fyrir Steed Lord og hvernig er að búa í borg englanna?

Já við höfum búið í LA í aðeins meira en sex ár en ég flutti hingað fyrst árið 2000 þegar ég var á samning hjá EMI/Priority Records sem sóló artisti. Þá bjó ég í LA í rúmlega eitt og hálft ár en flutti svo aftur til Íslands árið 2002 en var alltaf með annan fótinn hérna í LA. Við ákváðum að flytja alveg til LA sumarið 2009 og það hefur gert mikið fyrir bandið. Til dæmis bara samböndin sem maður býr til þegar maður býr í svona stórborg þar sem tækifærin eru út um allt. En það er samt heví samkeppni og margir sem eru að berjast um sama bitann. Við fílum hösslið og samkeppnina og það gefur okkur bara innblástur. Við höfum áorkað miklu á þessum sex árum sem við höfum búið hérna og erum með frábært og stórt teymi sem hjálpar okkur. Umboðsmenn, booking agent, aðstoðarfólk og fleira. Við köllum þetta “the Steed fam” við erum mjög náin, það svo er svo mikilvægt að hafa gott support þegar maður er að gefa út sína eigin tónlist og er listamaður útí hinum stóra heimi. Reykjavík er bara eins og eitt lítið hverfi í LA, þannig þú getur rétt ímyndað þér hvað allt er flóknara og erfiðara. Annars elskum við þessa borg og okkur líður ægilega vel hérna, búum í fallegri íbúð og eigum litla kisu sem heitir Lúsí. Við erum að vinna við það sem við elskum, tónlist, tísku, kvikmyndagerð og spila út um allan heim og við gætum ekki verið þakklátari.

svala 4

„Við erum akkúrat núna að taka upp nýju plötuna okkar og erum að vinna í fyrsta skipti með pródúsent hérna í LA sem er alveg frábær og höfum verið að semja tónlistina í allt sumar fyrir þessa nýju plötu. Við erum að spila eins og vanalega hér og þar í Bandaríkjunum og Evrópu. Eddi er á samning hjá Next Models í Bandaríkjunum og er oft að módelast og gerði til dæmis mjög stóra herferð fyrir Levi´s. Einar er á samning sem leikstjóri hjá flottu fyrirtæki í LA og Ástralíu.“ – Svala

Nú ert þú ekki bara að gera tónlist heldur einnig að hanna föt undir nafninu KALI, hvernig kom það til og er það eitthvað sem þú hefur stefnt að lengi?

Ég hef alltaf elskað tísku og að sauma. Hef saumað á mig föt og búninga frá því ég var unglingur. Við Steed Lord hönnuðum fatalínu fyrir H&M árið 2007 sem var seld í 120 búðum í 52 löndum og þá rann upp fyrir mér að ég gæti svo sem alveg gert mína eigin línu og það væri líka bara lærdómsríkt og gaman. Helga Ólafsson sem rekur fata vefsíðuna Lastashop.com í LA hafði samband við mig fyrir þremur árum og vildi fjárfesta í mér sem fatahönnuð og ég myndi þá vera með mína eigin fatalínu sem yrði seld á síðunni hennar og víðar í Ameríku. Ég sló til og við vorum að gefa út fjórða collectionið núna í sumar, það gengur rosa vel og vorum við að komast inná Asosmarketplace.com sem er ein stærsta og vinsælasta shopping síða fyrir stelpur og konur út um allan heim. Ég myndi samt aldrei kalla mig fatahönnuð því ég lít meira á mig sem söngkonu sem er með sína eigin fatalínu. Þarna fæ ég smá útrás fyrir tískudellunni í mér.

svala 6

„Fólk má búast við því að uppgötva næstu stórstjörnu Íslands því þarna eru á ferð svakalega góðir söngvarar og söngkonur sem eiga eftir að syngja sig inn í hjörtu íslendinga. það má búast við góðu gríni á milli okkar þjálfaranna því við erum að keppa á móti hvort öðru og það er kominn smá keppnisandi í okkur.“ – Svala

Steed Lord er ótrúlega virk hljómsveit en þið gerið ekki bara tónlist heldur margt annað. Geturðu sagt okkur aðeins frá því sem þið eruð að fást við þessa dagana?

Já, við í Steed Lord erum þekkt fyrir okkar tónlist og okkar live show. Við erum með okkar eigið plötufyrirtæki og höfum alltaf leikstýrt og klippt okkar eigin tónlistarmyndbönd. Við höfum oft verið ráðin til að gera myndbönd fyrir aðra listamenn og fyrirtæki eins og Standard Hotels og Super Super Sunglasses á Ítalíu. Við erum með okkar eigin Steed Lord fatalínu og eins og ég nefndi áðan þá hönnuðum við fatalínu fyrir H&M og hönnuðum einnig flíkur fyrir sænska fatafyrirtækið WeSC en við vorum andlit fyrir það fyrirtæki í mörg ár og unnum mikið með þeim. Einar og Eddi sem eru í Steed Lord með mér eru frábærir plötusnúðar en þeir eru mikið ráðnir til að spila út um allt. Einnig sjáum við um mest alla markaðssetningu á bandinu og þá meina ég að hanna okkar eigin plötu umslög, artwork og gert okkar eigin ljósmyndun, en við elskum samt að vinna náið með öðrum ljósmyndurum og grafískum hönnuðum sem sjá okkar hugmyndir verða að veruleika. Við erum akkúrat núna að taka upp nýju plötuna okkar og erum að vinna í fyrsta skipti með pródúsent hérna í LA sem er alveg frábær og höfum verið að semja tónlistina í allt sumar fyrir þessa nýju plötu. Við erum að spila eins og vanalega hér og þar í Bandaríkjunum og Evrópu. Eddi er á samning hjá Next Models í Bandaríkjunum og er oft að módelast og gerði til dæmis mjög stóra herferð fyrir Levi´s. Einar er á samning sem leikstjóri hjá flottu fyrirtæki í LA og Ástralíu. Við erum alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt og spennandi.

Ef þú gætir einungis hlustað á eina plötu það sem eftir er ævinnar hvaða plata yrði fyrir valinu og af hverju sú plata?

Það myndi klárlega vera Purple Rain sándtrakkið með Prince. Ég elska og dýrka þessa plötu og ég fæ aldrei leið á Prince og hans tónlist, hann er snillingur. Ég hef séð hann spila tvisvar live í LA og ég fór bara í einhverja aðra vídd.

svala 5

„Framundan hjá mér er að koma tvisvar í viðbót til Íslands fyrir jól í nokkra daga til að taka upp The Voice þættina og þess á milli er ég heima í LA að taka upp plötuna okkar og spila gigg hér og þar. Við erum svo að fara að gera nýtt myndband við nýjasta lagið okkar sem kemur vonandi út bráðlega.“ – Svala

Nú ert þú einn af dómurum í Íslenska The Voice. Hvernig fannst þér að sitja í dómarasætinu og kom þér eitthvað á óvart við upptöku þáttana?

Við megum víst ekki kalla okkur “dómara” því við erum þjálfarar. Við Salka, Unnsteinn og Helgi erum þjálfarar og með okkar eigin átta manna lið sem keppa svo á móti hvort öðru í þættinum. Við erum reyndar bara búin að taka upp tvo þætti en þetta er búið að vera alveg svakalega gaman og þetta er allt svo flott og pró gert.  Það sem kom mér á óvart var að ég þekkti bara eina persónu í áheyrnaprufunum.  Ísland er lítið land og ég hélt ég myndi þekkja alveg allavega nokkra sem myndu syngja en ég kannaðist bara við eina stelpu. Allir sem komu í áheyrnarprufurnar voru frábærir og allt svo hæfileikaríkt fólk með fallegar raddir. En svo er mjög erfitt að snúa baki í keppendur þegar þau syngja fyrir mann í fyrsta skipti og maður þarf að ákveða hvort maður vilji velja þessa persónu í sitt lið. Maður má bara velja átta manns og þarna voru allavega sextíu manns að keppa og allir svo góðir að syngja. Þetta tók verulega á og stundum hélt maður að kona væri að syngja og svo snéri maður sér við þá var það strákur að syngja. Þetta verður virkilega spennandi þegar á líður keppnina og ég hlakka til að fá að vinna svona náið með mínu liði og hjálpa þeim og styðja í gegnum þetta allt saman. Svo er ég með hann Barða Jóhannsson snilling með mér sem aðstoðar þjálfara í mínu liði. Þetta verður bara gefandi og skemmtilegt verkefni.

svala 8

„Framundan hjá mér er að koma tvisvar í viðbót til Íslands fyrir jól í nokkra daga til að taka upp The Voice þættina og þess á milli er ég heima í LA að taka upp plötuna okkar og spila gigg hér og þar. Við erum svo að fara að gera nýtt myndband við nýjasta lagið okkar.“ – Svala

Hverju mega Íslendingar búast við í The Voice og hvernig var að vinna með Sölku Sól, Helga Björns og Unnsteini Manuel?

Fólk má búast við því að uppgötva næstu stórstjörnu Íslands því þarna eru á ferð svakalega góðir söngvarar og söngkonur sem eiga eftir að syngja sig inn í hjörtu íslendinga. það má búast við góðu gríni á milli okkar þjálfaranna því við erum að keppa á móti hvort öðru og það er kominn smá keppnisandi í okkur. Það er búið að vera frábært að vinna með Sölku, Unnsteini og Helga. Ég hef þekkt Helga í mörg ár bara í gegnum pabba minn og svo söng ég með Unnsteini á Jólagestum í Höllinni einu sinni. Ég hafði aldrei hitt Sölku og fílaði hana bara um leið og ég hitti hana. Þau eru öll frábær og svo hæfileikarík í sínu og við erum öll svo ólík og erum að gera ólíka hluti í tónlist. Það kemur svo skemmtilega út hvað við erum ólík í þættinum en samt vinnum við öll svo vel saman.

Hvað er framundan hjá þér og hvað er framundan hjá hljómsveitinni Steed Lord?

Framundan hjá mér er að koma tvisvar í viðbót til Íslands fyrir jól í nokkra daga til að taka upp The Voice þættina og þess á milli er ég heima í LA að taka upp plötuna okkar og spila gigg hér og þar. Við erum svo að fara að gera nýtt myndband við nýjasta lagið okkar sem kemur vonandi út bráðlega. Það getur samt tafist því við erum í viðræðum við nokkur plötufyrirtæki í Ameríku sem hafa áhuga á að gefa plötuna út þannig útgáfa gæti tafist út af því. Ég er líklega að gera nýja línu fyrir Kali fatamerkið mitt. Svo er alltaf eitthvað nýtt og spennandi á döfinni hjá okkur í framtíðinni.

Hlekkir:

https://www.facebook.com/steedlord

http://cargocollective.com/steedlord

 

Tengdar Færslur:

http://albumm.is/steed-lord-endurhljodblandar-lagid-sabazios-o-med-bang-gang/

http://albumm.is/eddie-house-sendir-fra-ser-lagid-u-know-how-i-feel/ 

 

 

Comments are closed.