SVÁFNIR SENDIR FRÁ SÉR SÍNA FYRSTU SÓLÓ PLÖTU

0

album_cover_ss

Sváfnir Sigurðarson hefur sent frá sér plötuna Loforð Um Nýjan Dag en það er jafnframt hans fyrsta sólóplata. Á plötunni leikur með Sváfni hljómsveitin Drengirnir af upptökuheimilinu, sem var sérstaklega sett saman til að vinna að gerð plötunnar. Þeir eru: Eðvarð Lárusson, gítarleikari, Kristján Freyr Halldórsson, trommuleikari, Pálmi Sigurhjartarson, píanóleikari og Tómas M. Tómasson, bassaleikari.

Loforð Um Nýjan Dag var hljóðrituð í Stúdíó Hljómi og það var Hjálmur Ragnarsson sem stýrði upptökum, Skapti Þóroddsson sá um hljóðblöndun og Sigurdór Guðmundsson, hjá Skonrokk Stúdíós sá um masteringu.

Loforð Um Nýjan Dag er níu laga plata þar sem melódramatíkin er aldrei langt undan og yrkisefnin eru jafn ólík og lögin eru mörg. Sváfnir og drengirnir munu halda útgáfutónleika í Gamla bíói 9. febrúar næstkomandi.

svafnir

Lalli í 12 Tónum og Sváfnir á góðri stundu.

Sváfnir hefur komið víða við í tónlist, ýmist sem flytjandi eða höfundur. Fyrst með hljómsveitinni KOL sem sendi frá sér geisladiskinn Klæðskeri Keisarans árið 1994. Sváfnir var um tíma meðlimur í dönsku hljómsveitinni Quite Frankly í og er annar söngvara og lagahöfunda í hljómsveitinni Menn Ársins sem sendi frá sér geisladisk árið 2008. Sváfnir hefur samið tónlist við leiksýningar og stuttmyndir svo fátt eitt sé nefnt.

Sváfnir gefur sjálfur út plötuna, en hún er til sölu í versluninni 12 Tónar á Skólavörðustíg og á Bandcamp.

Skrifaðu ummæli