„SUMIR TEXTARNIR ERU ÁKAFLEGA PERSÓNULEGIR“ – JÓN ÓLAFSSON

0

Plötuumslagið!

Tónlistarmaðurinn góðkunni Jón Ólafsson sem margir þekkja úr úrvalssveitinni Ný Dönsk var að senda frá sér brakandi ferskt lag og myndband sem ber heitið „Ég græt það.” Lagið er tekið af væntanlegri plötu kappans sem mun vera hans þriðja sólóplata.

Jón Ólafsson og raftónlistarmaðurinn Futuregrapher sendu frá sér plötuna Eitt fyrir ekki svo löngu en að sögn Jóns hefur raftónlistin haft töluverð áhrif á hans tónlistarsköpun að undanförnu.

Albumm.is náði tali af Jóni og svaraði hann nokkrum laufléttum spurningum um nýja lagið og komandi plötu.

„Ég græt það“ rennur afar ljúflega niður. Er þetta forsmekkurinn af því sem koma skal?

Já það má alveg segja það.  Tónlistin á plötunni er mjög minimalisk og ég passa mig á að ofhlaða ekki. Í þessu lagi nota ég nokkur element sem urðu til í upphaflega demói lagsins og það er vinnuaðferð sem kemur fyrir í flestum lögunum. Langaði að láta frumsköpunina flæða yfir í upptökuferlið. Fyrir vikið var ég frekar fljótur að gera plötuna.

Jón Ólafsson mundar nóturnar eins og honum einum er lagið.

 Lagið er tekið af væntanlegri sólóplötu, er lagið og platan búin að vera lengi í vinnslu?

Góð spurning. Hef gert tvær sólóplötur áður (2004 og 2007) þannig að það er að verða kominn áratugur frá því ég gerði síðast plötu undir eigin nafni. Síðan þá hefur auðvitað safnast upp hellingur af efni en samt endaði þetta nú þannig að elstu lögin á þessari plötu eru frá árinu 2013 en flest þeirra urðu til fyrr á þessu ári.

Jón Ólafsson og Futuregrapher á tónleikum.

Fyrir ekki svo löngu gafst þú út plötuna „Eitt“ ásamt raftónlistramanninum Futuregrapher, hefur það haft einhver áhrif á þína tónlistarsköpun?

Já það ferli opnaði ýmsar gáttir hjá mér ef satt skal segja og það má alveg segja að nýja platan mín sé eitthvað smituð af samstarfinu við Árna.  Ég er til dæmis með tvö stutt píanólög á plötunni sem ríma ágætlega við ambient músíkina okkar félaganna.

Hvenær kemur nýja platan út?

Ég á von á geisladiskinum til landsins í þessari viku en vinyllinn tekur töluvert lengri tíma í framleiðslu. Eigum við ekki bara að segja að útgáfudagurinn sé þegar það birtist mynd af mér á Facebook að auglýsa „beint af býli?“

Eitthvað að lokum?

Það ríkir töluvert mikil spenna innra með mér vegna útkomunnar því maður er alltaf hálf berskjaldaður þegar maður er svona einn og óstuddur – auk þess sem sumir textanna eru ákaflega persónulegir. En ég er sáttur við útkomuna og þá er nú eiginlega bara tilganginum náð ekki satt?

Jón Ólafsson blæs til heljarinnar útgáfutónleika þann 16. Mars næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í Salnum í Kópavogi, Facebook viðburðinn má sjá hér.

http://jon.is

Skrifaðu ummæli