STYRKTU TÓNLISTARMENN MEÐ SVEITTUM NÆRBUXUM

0

melodica

Alþjóðlega tónlistarhátíðin Melodica Festival verður haldin á Kex Hostel og Café Rosenberg dagana 26. til 28. ágúst næstkomandi. Þar mun fjöldi tónlistarmanna koma fram, bæði frá Íslandi og utan úr heimi. Hátíðin fer fram á Kex á föstudag og laugardag en endar með sunnudagsrólegheitum á Café Rosenberg.

melodica 2

Þetta er níunda árið sem hátíðin er haldin hér á landi en hún á erlendar rætur að rekja og var upprunalega haldin í Melbourne, Ástralíu árið 2007. Í dag er hún haldin m.a. í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Englandi, Noregi og Austurríki. Melodica hátíðin er í raun alþjóðlegt tengslanet smárra sjálfstæðra tónlistarhátíða sem allar hafa það að markmiði að byggja upp og efla samfélag tónlistarfólks og samstarf þeirra á milli. Melodica hátíðin hefur frá upphafi verið fjármögnuð með frjálsum framlögum sem notuð eru til að greiða fyrir ferðakostnað erlendu tónlistarmannanna til Íslands.

melodica 3

Í ár hafa skipuleggjendur Melodica á Íslandi ákveðið að blása til hópfjármögnunar á hátíðinni í ljósi aukins fjölda erlendra listamanna. Söfnunin fer fram á síðunni Karolinafund.com og hafa skipuleggjendur þegar safnað fyrir um helmingi kostnaðarins. Þeir sem styrkja hátíðina eiga von á góðum gjöfum; allt frá tónlist og árituðum plakötum til áritaðs úkúlele frá Svavari Knúti. Nú hefur bæst í pottinn nýsveitt skokkföt frá söngvaskáldinu sem nýlega tók upp á því að fara út að skokka [á hverjum degi]. Hann ætlar nú að láta svitastorkin fötin af hendi rakna fyrir 500 evrur og rennur allur ágóði til hátíðarinnar.

Fjölmargir frábærir íslenskir listamenn hafa þegar staðfest þátttöku sína í hátíðinni og hafa átta erlendir listamenn boðað komu sína á hátíðina. Þar a meðal eru Pétur Ben, Myrra Rós, Peter Pied (DE), OAZO (DE) og White Note (FR). Tilkynnt verður um fleiri listamenn á hátíðinni á næstu vikum.

Comments are closed.