Stefán Elí gefur út litríkt tónlistarmyndband og safnar fyrir plötu.

0

Akureyrski tónlistarmaðurinn Stefán Elí var að senda frá sér glænýtt lag og myndband sem ber nafnið „Switching Gears.” Lagið er fjörugt og minnir kanski á að einhverju leiti tölvuleikjatónlist.

„Þegar ég var að byrja að fikta mig áfram við taktinn þá var ég að prófa að leika mér með ýmis hljóðfæri og bjó til nokkur hljóð sem öll minntu mig á svona klassískt „Nintendo sound”. Svo út frá því komu hljómar og laglínur og þá var lagið ekki lengi að semja sig.” – Stefán Elí.

Stefán Elí hefur verið duglegur undanfarið við að gefa út efni. Hann gaf út lagið „Lost Myself” 2. febrúar og tveimur vikum síðar sendi hann og Ivan Mendez frá sér lagið „Say You Love Me Now.”

Nú vinnur Stefán að plötu sem er væntanleg í byrjun apríl. Hann hefur sett af stað söfnun inn á Karolina Fund vefsíðunni þar sem hann býður upp á að kaupa plötuna á CD og vínyl. Inni á síðunni er einnig hægt að kaupa miða á útgáfutónleika, sem verða haldnir á Akureyri 7. apríl, boli og ýmsa pakka sem innihalda sitt af hverju.

Hér fyrir neðan fjallar Stefán Elí um söfnunina og hvernig þið getið hjálpað til.

Hæhó,

„Ég heiti Stefán Elí og er tónlistarmaður frá Akureyri. Staðan er sú að mig langar ótrúlega mikið til þess að gefa út plötu. Ég er búinn að semja lögin en mig langar til þess að gera eitthvað meira en að kasta þeim bara inn á netið í von um að eitthvað muni gerast. Svo ég hugsaði mér að það gæti orðið fáránlega skemtilegt að setja í gang söfnun svo ég gæti framleitt geisladiska, vínylplötur, haft útgáfutónleika og prentað á boli. Svo ég fór inn á Karolina Fund vefsíðuna og hafði samband við fólkið þar og þeim leist mjög vel á hugmyndina. Þá fór í gang ferli þar sem ég vann í að setja upp síðuna og nú er hún komin í loftið. Jeijjj!! Söfnunin virkar sem sagt þannig að þið getið forpantað ýmsa skemmtilega hluti á síðunni, t.d. boli, miða á tónleikana mína, geisladiska og fleira, og ef okkur tekst að safna upp að settu markmiði þá fá allir það sem þeir pöntuðu. Hinsvegar er leiðinlegi kosturinn sá að ef okkur tekst ekki að safna nægilega miklu þá fær enginn neitt og bolirnir, geisladiskarnir, plöturnar og tónleikarnir eiga sér ekki stað. Þess vegna þurfum við að hjálpast að við að safna þessum pening svo þetta verði allt að veruleika, og þar getið þið hjálpað mér. Það er slatti af ,,dílum” í boði inni á síðunni og þið getið skoðað það allt þar. Hver ,,díll” er misdýr og misstór svo þið getið pottþétt fundið eitthvað sem hentar ykkur. Á síðunni er líka hellingur af skemmtilegum myndum og myndböndum sem þið getið skoðað.”

Endilega skoðið söfnunina á Karolina Fund hér.

Skrifaðu ummæli